139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:25]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur kærlega fyrir innleggið. Ég var akkúrat að benda á þetta, að þegar einhver aðili eða stofnun hefur það vald að geta valið á milli aðila án þess að þurfa að rökstyðja þá ákvörðun sem út úr því kemur er alltaf mikil hætta á spillingu eða við skulum bara segja, svo við séum heiðarleg, að það vekur að minnsta kosti upp mikla tortryggni milli þeirra aðila sem standa í sömu sporum.

Það er ekki nóg með að umræðan komi til með að vera um þetta heldur er þetta líka klárt brot á jafnræði. Þegar ekki er upplýst um hverjir fá til dæmis að koma inn á markaðinn með þessar aflandskrónur er verið að mismuna öðrum sem óska eftir því að koma inn. Í 15. gr. laga um gjaldeyrinn sem ég fór aðeins yfir áðan eru líka ströng ákvæði um að ef einhver vildi láta reyna á það samkvæmt jafnræðisreglum hverjir fá að koma inn með aflandskrónur skuli dómari úrskurða um það. Þá er Seðlabankanum skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu sjálfri upplýsingar samkvæmt lögunum. Þarna þarf dómsúrskurð og þarna þarf hreinlega að höfða dómsmál til að komast að hinu sanna vegna bankaleyndar Seðlabanka.

Ef við skoðum þetta í samhengi við það kosningaloforð Samfylkingarinnar að hér skyldi allt vera gagnsætt og uppi á borðum er það í hrópandi ósamræmi. Ef eitthvað er hefur leyndarhyggjan aukist svo til muna að hér er vart orðið líft lengur. Upplýsingar eru af svo skornum skammti hjá hinu opinbera að þingmenn fá ekki einu sinni upplýsingar um það sem þeir eiga rétt á.