139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:27]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki lögfræðingur en hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur lögfræðimenntun og þar af leiðandi vil ég í þessu seinna andsvari mínu spyrja hana út í lögfræðileg atriði sem ég hef haft efasemdir um. Er þingið ekki að fara inn á valdsvið Seðlabankans með því að leiða í lög frumvarp sem lögfestir framkvæmd gjaldeyrishaftanna? Samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands fer hann með framkvæmd peningamálastefnunnar en ekki Alþingi. Með lögleiðingu þessa frumvarps erum við að taka fram fyrir hendurnar á Seðlabankanum og setja í lög hvernig Seðlabankinn eigi að framkvæma peningamálastefnuna að hluta til, a.m.k. hvað varðar gjaldeyrishöftin sjálf.

Mig langar jafnframt að spyrja hv. þingmann um afstöðu Framsóknarflokksins til gjaldmiðilskreppunnar sem gjaldeyrishöftin eiga að leysa, a.m.k. tímabundið. Er það stefna Framsóknarflokksins að við verðum með krónuna næstu árin eða er það stefna Framsóknarflokksins að við tökum upp nýja íslenska krónu, annan gjaldmiðil? Hvaða gjaldmiðil ættum við þá að taka upp? Hvaða gjaldmiðill mun með öðrum orðum henta íslenska hagkerfinu best?

Frú forseti. Ég veit að hv. formaður Framsóknarflokksins hefur leitað til Norðmanna eftir láni til að standa straum af skuldbindingum Íslands og ég velti fyrir mér hvort formaðurinn hafi jafnframt leitað eftir samstarfi við Norðmenn um lausn á gjaldmiðilskreppunni.