139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst að fyrri spurningunni, um það hvort Alþingi sé ekki að fara inn á valdsvið Seðlabankans með lagasetningu þessari því að þessi gjaldeyrishöft byggðu á reglum Seðlabankans þar til frumvarpið kom fram. Það má alveg færa fyrir því rök að Alþingi sé að seilast inn á valdsvið Seðlabankans en rökin fyrir þessu frumvarpi voru þau að reglurnar væru hriplekar. Það er búið að fara svo fram hjá þeim reglum að mér var sagt að ástæða þessa frumvarps væri fyrst og fremst sú að lögfesta yrði reglurnar vegna yfirvofandi hættu á dómsmálum vegna þessara hripleku reglna og sérstaklega líka þessa ójafnræðis milli aðila. Auðvitað hlýtur nú á vetrarmánuðum að koma fram dómsmál þar sem aðilar fara hreinlega fram á að fá á hreint hverjir einkavinir Seðlabankans eru, þeir sem fá að flytja inn aflandskrónur, og hverjir eru úti í kuldanum. Eins og komið hefur fram taka þessir úrskurðir mjög langan tíma hjá Seðlabankanum og sumu er hafnað og sumir fá að vera inni í hitanum og nota sínar aflandskrónur. Það skekkir mjög bæði erlenda fjárfestingu og kaup á íslenskum fyrirtækjum og samkeppnisstöðu og rekstur fyrirtækja á markaði.

Um gjaldmiðilskreppuna sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir kom inn á og spurninguna um hvað Framsóknarflokkurinn sjái fyrir sér, hvort við viljum halda í íslensku krónuna, taka upp nýja íslenska krónu eða jafnvel taka upp norska krónu, er það rétt að formaður Framsóknarflokksins leitaði eftir samstarfi við Norðmenn fyrir nokkrum missirum. Það sem við erum þó fyrst og fremst að glíma við er vanhæf ríkisstjórn sem sér ekkert nema evruna.

Þá ætla ég að segja fyrir mig sem framsóknarmann að ég sé fyrir mér að við höldum íslensku krónunni. Hún kemur til með að duga okkur mjög vel, þ.e. ef ríkisstjórnin hefur það að markmiði að uppfylla Maastricht-skilyrðin. Þau eru heilbrigðisvottorð á góða efnahagsstjórn (Forseti hringir.) þannig að við þurfum fyrst og fremst að laga landsstjórnina og taka hér til í efnahagsmálastjórnun í stað þess að ráðast á gjaldmiðilinn.