139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:52]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef tekið eftir því einmitt að stjórnarliðar og fylgismenn frumvarpsins hafa haldið því fram að nauðsynlegt sé að lögfesta reglur um gjaldeyrishöft vegna þess að refsiákvæði reglnanna sem Seðlabankinn setti standist ekki, þau haldi ekki fyrir dómi muni á þau reyna í málum þar sem krafist er refsingar yfir mönnum sem eru taldir hafa brotið gegn gjaldeyrishaftareglum Seðlabankans.

Þetta er alveg rétt. Það er auðvitað vandinn við þær reglur sem Seðlabankinn setti. Seðlabankinn setti reglur um hvernig þessum málum ætti að haga og í þeim reglum eru refsiákvæði. En það vill nú þannig til að þó svo að Seðlabankinn sé merkilegur og sá sem þar stýrir núna málum telji sig hafa mikil völd fer Seðlabankinn ekki með lagasetningarvald í þessu landi. Hann hefur engar heimildir að íslenskum stjórnlögum til að setja reglur sem fela í sér refsiheimildir, það er annarra að gera það. Seðlabankinn er ekki ríki í ríkinu sem fer með eitthvert reglusetningarvald sem byggt verður á fyrir dómstólum. Þess vegna eru menn að reyna að festa þessi ákvæði í lög.

Það er einmitt þetta ákvæði sem Reimar Pétursson hæstaréttarlögmaður bendir á í fræðigrein sinni sem ekki hefur verið neitað, þ.e. að refsiákvæði reglna Seðlabankans voru í fyrsta lagi óskýr og óljós og í öðru lagi ekki réttilega birt og þar af leiðandi yrði ekki á þeim byggt. Þetta er leki sem verið er að reyna að setja undir í þessu máli.

Hv. þingmaður segist ekki vilja aflétta gjaldeyrishöftunum og hefur áhyggjur af krónunni. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann á móti: Hefur hún kynnt sér þær tillögur sem Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, hefur sett fram í grein í Vísbendingu (Forseti hringir.) sem felur í sér afléttingu haftanna á sex til níu mánuðum? (Forseti hringir.) Telur hún að sú aðferðafræði sem þar kemur fram sé tæk?