139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:56]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur svo sem ekki verið á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, ef ég man hana rétt, að skattleggja útstreymi. En menn hljóta auðvitað að skoða allar leiðir sem eru í stöðunni ef þær eru til þess fallnar að afnema gjaldeyrishöftin. Það sem við viljum númer eitt, tvö og þrjú er að losna við þessi gjaldeyrishöft vegna þess að þau eru gríðarlega skaðleg bæði fyrir einstaklinga og fyrirtækin í landinu.

Til að það sé hægt að gera kem ég að annarri spurningu sem ég átti eftir að svara og hv. þingmaður varpaði hér fram. Það þarf náttúrlega einhverja alvöruefnahagsáætlun og aðgerðaáætlun. Það þarf að keyra hagkerfið í gang til að hér verði framleiðsla og tekjur og eitthvað fari að gerast til þess líka að við fáum einhverja raunverulega mælingu á styrk krónunnar.

Ég er ekkert mjög svartsýnn á gengi krónunnar, ég held að það geti ýmislegt gerst ef gjaldeyrishöftin yrðu tekin af á morgun. (Forseti hringir.) En ég verð að segja það eins og er að mér finnst það vera einnar messu virði fyrir íslensk stjórnvöld að skoða þær hugmyndir sem fram hafa komið frá mönnum sem þekkja vel til, eins og Páli Harðarsyni, og taka þær til skoðunar. Það hefur því miður ekki verið gert vegna þess að ríkisstjórnin veit miklu betur og skilur miklu betur en allir aðrir.