139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

matvælaöryggi og tollamál.

[15:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég held að það sé erfitt að byrja þessa utandagskrárumræðu sem ég ætla að eiga við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nema hann sé í salnum. Ég geri ráð fyrir að (Gripið fram í: Hann er …) við ættum að gera hlé á umræðunni þar til hann birtist. Þarna kemur hann á harðahlaupum. Veri hæstv. ráðherra velkominn í salinn.

Ég geri ráð fyrir að þessu verði þá bætt við tíma minn.

Ég óskaði eftir því að fá að ræða matvælaöryggi og tolla við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Eftir að álit umboðsmanns Alþingis lá fyrir um að tollkvótar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna innflutnings á landbúnaðarafurðum stönguðust á við stjórnarskrána spratt eðlilega upp mikil umræða um tolla og fæðuöryggi í landinu. Við skulum muna að þegar innflutningsbann á búvörum var afnumið vegna aðildar okkar Íslendinga að GATT árið 1995, þ.e. innflutningsbannið var tekið af, skuldbatt landið sig til að hleypa inn erlendum búvörum sem næmu um 3% af innanlandsneyslu, m.a. til að auka samkeppni og fjölbreytni en ekki síst til að lækka verð til neytenda. Úrvalið jókst vissulega eitthvað en verðið til neytenda hefur lítt lækkað. Frá því að innflutningsbannið var afnumið hefur neysla á búvörum aukist margfalt, sem er jákvætt, og breyst en enn miðast tollumhverfið við neysluna eins og hún var fyrir 20 árum, þ.e. tollumhverfið og viðmiðanirnar eru enn þá eins og var fyrir 20 árum og ekkert tillit er tekið til breyttra lífs- og neysluhátta Íslendinga.

Þvert á móti hefur hæstv. landbúnaðarráðherra slegið um sig í nafni fæðuöryggis, hækkað múra og aukið hindranir þannig að allt í einu blossar upp gamaldagsumræða um kjötskort í landinu.

Allir gera sér grein fyrir mikilvægi fæðuöryggis en eins og ráðherrann og fylgisveinar hans hafa beitt því er það ekkert annað en fyrirsláttur að mínu mati til að viðhalda gamaldagshaftakerfi sem ekki þorir að nýta sér kosti fjölbreytni og samkeppni, hvað þá að horfast í augu við breyttar neysluvenjur og auknar kröfur af hálfu neytenda. Það er verið að slá ryki í augu fólks með því að ala á óþarfaótta í sambandi við fæðu- og matvælaöryggi. Ef menn vilja í alvöru ræða matvælaöryggi lands eins og okkar sem er háðara en flest önnur lönd viðskiptum við erlend ríki felst fæðuöryggi frekar í frjálsum viðskiptum í opnu hagkerfi við aðrar þjóðir og nánu alþjóðlegu samstarfi en að loka landinu fyrir fjárfestingum og innflutningi á búvörum. Það er í raun það sem landbúnaðarráðherra er að gera með geðþóttaákvörðun sinni.

Ég spyr: Af hverju er til dæmis ekki hægt að leyfa Íslendingum að njóta ávaxtanna af árstíðabundinni uppskeru, jafnvel þótt hún sé erlend? Hversu fáránlegt er það að þegar verðið fellur úti hækkar það hér þegar íslensk uppskera kemur á markað?

Íslenskar afurðir verða að vinna þennan slag á öðrum forsendum en verði einu og sér. Af hverju tölum við ekki um íslenska framleiðslu, umhverfisvænan lífsstíl sem felst í því að borða mat úr eigin umhverfi í stað þess að flytja hann heimshorna á milli? Leggjum frekar áherslu á uppruna og ýtum þannig enn undir þróun sem er hafin í sölu á matvælum beint frá býli og reynum að verða meðvitaðri um hvað við setjum ofan í okkur.

Við þurfum að auka neyslu á grænmeti og ávöxtum. Flestir hafa væntanlega þá skoðun að betra sé að vita hvaðan kjötið kemur og hvernig meðferðin á því hefur verið. Landbúnaðarvörur okkar eru stórkostlegar og eiga ekki að þurfa að óttast breytingar.

Við sjáum víða vaxtarsprotann í íslenskum landbúnaði. Margir hafa að undanförnu bent á Vallanesbúið eða ýmsa aðra nýsköpun og vöruþróun víða um land. En landbúnaðarráðherra hefur mikið vald með eins manns þingmeirihluta ríkisstjórnarinnar og getur að mínu mati misbeitt valdi sínu freklega eins og hann gerði vorið 2009 þegar hann breytti innflutningstollum í verðtolla í stað magntolla sem þeir höfðu verið áður. Hversu fáránlegt er að það er dýrara að flytja inn tollkvótann en vörur með almennum ofurtollum eins og það er í dag? Skítt með neytendur. Og það sem verra er, hæstv. ráðherra er með þessu brölti sínu búinn að eyðileggja fyrir íslenskum landbúnaði. Það er algjörlega óviðunandi að hann skipi með hegðun sinni neytendum og bændum í andstæð lið — óþolandi — þ.e. andstæð lið sem eiga þá í hatrammri deilu. Bændur hafa ekki beðið um og eiga ekki skilið að vera settir í þessa aðstöðu, hvað þá neytendur. Landbúnaðurinn er að óþörfu kominn í varnarstöðu í stað þess að njóta þeirra sóknarfæra sem fylgja opnara og gegnsærra kerfi, kerfi sem er ekki háð duttlungum ráðherra.

Ég spyr hæstv. ráðherrann að þrennu:

1. Ætlar hann ekki að hafa frumkvæði að því við fjármálaráðherra sem yfirmann tollamála að tollalögum verði breytt og að farið verði að áliti umboðsmanns Alþingis? Annars er minnsta mál fyrir mig að koma með lagabreytingartillögu sem uppfyllir skilyrði stjórnarskrár í þessu efni.

2. Ætlar ráðherra að beita sér fyrir breytingum á landbúnaðarkerfinu, þar með talið tollum sem taka tillit til breyttra neysluhátta okkar Íslendinga? Eða vill ráðherra algjörlega óbreytt kerfi?

3. Ætlar ráðherra að auka frelsi innflutnings á búvörum?

Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra gæti svarað þessum spurningum mínum skýrt og skorinort.