139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

matvælaöryggi og tollamál.

[15:20]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Mig langar að nota þessar tvær mínútur til að segja stutta sögu af tómötum og gúrkum. Tollar á tómötum og gúrkum og nokkrum öðrum tegundum grænmetis voru felldir niður á Íslandi 2002. Það er dálítið fróðlegt að skoða hvað gerðist við það. Framleiðsla á innlendum tómötum jókst um um það bil 60% eftir að tollarnir voru lagðir niður, úr tæpum 1.000 tonnum í 1.600 tonn. Framleiðsla á innlendum gúrkum jókst um 40% við afnám tolla. Tekið var upp annars konar styrkjakerfi við grænmetisbændur við sama tilefni, en sagan sýnir auðvitað að það er engan veginn öruggt að tollar verndi innlenda framleiðslu á einhlítan hátt. Þegar afnám tollanna varð tóku grænmetisbændur sig náttúrlega saman, þeir bjuggu til slagorð sem heitir „Veljum íslenskt“ og bjuggu til hóp sem heitir íslenskir garðyrkjubændur og styrktu samkeppnisstöðu sína. Markaðshlutdeild innlendrar gúrku jókst úr 80% í 90% við afnám tolla.

Þessi litla saga af tómötum og gúrkum sýnir okkur auðvitað að við eigum óhrædd að nálgast uppstokkun í landbúnaði og spurningar varðandi matvælaöryggi með það að markmiði að nútímavæða allt þetta umhverfi. Ég held að eitt það besta sem gæti komið fyrir íslenskan landbúnað í heild sinni, vegna þess að gæði hans eru mikil, væri afnám tolla og breytt, skynsamlegra, nútímalegra styrkjakerfi í landbúnaði. Ég held að það væri það langbesta sem gæti komið fyrir.