139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

matvælaöryggi og tollamál.

[15:27]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst segja að ég er hjartanlega ósammála þeirri röksemd sem hér hefur farið á loft um matvælaöryggi. Við skulum hafa það algjörlega á hreinu að lokist landið mun öll matvælaframleiðsla í landinu væntanlega stöðvast á tveimur vikum enda byggir sú framleiðsla á aðföngum erlendis frá.

Mér sýnist umræðan heilt yfir sýna vel í hversu mikil vandræði við erum komin með hið íslenska landbúnaðarkerfi. Ráðherra er kominn í ógöngur með reglugerðir sínar. Bændur er læstir í fátæktargildru. Ríkisstuðningur við greinina er margfaldur við það sem gerist erlendis. Samt greiða neytendur hátt verð fyrir afurðir. En samt standa menn hér og lofa og prísa þetta kerfi.

Að mínu viti þarf að ráðast í heildarendurskoðun á íslensku landbúnaðarkerfi. Þar ber að viðurkenna fyrst og fremst að styðja þarf við og styrkja íslenskan landbúnað rétt eins og Evrópusambandið hefur nú viðurkennt með áliti sínu frá því í gær. Þeir sem kalla eftir endurskoðun gera það vegna þess að þeir vilja styrkja íslenskan landbúnað. En við þurfum að opna kerfið og losa bændur undan ánauðinni. Það á að stuðla að nýsköpun og aukinni arðsemi í greininni til hagsbóta fyrir bændur og neytendur.

Dæmi um það sem vel hefur tekist til má sjá í sögu bændanna á Vallanesi. Þar eiga bændur gott samband við neytendur enda vilja neytendur gæðavöru sem þeir vita hvaðan kemur og hvernig er búin til. Það hafa nánast verið viðtekin sannindi í íslenskum landbúnaði að ekki sé hægt að framleiða búvöru án ríkisstyrkja. Þess vegna vekur það athygli að bygg og útiræktað grænmeti er framleitt í Vallanesi án styrkja. Vallanesfólkið hugsar augljóslega út fyrir rammann. Að mínu viti á ráðherra landbúnaðarmála að gera það sömuleiðis. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)