139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[15:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Við höldum nú áfram umræðu um framlengingu gjaldeyrishafta. Mjög lítið breytt tillaga liggur hér fyrir þrátt fyrir að samið hafi verið um það við þinghlé í vor að ríkisstjórnin reyndi að gera endurbætur á þessu frumvarpi sínu. Það hefur ekki gerst, við erum hér enn í sömu sporum og þar sem skilið var við málið þrátt fyrir að reyndar sé búið að fella út, það var gert í vor, nokkur atriði sem voru hreint út sagt fáránleg. Þó er enn þá margt fáránlegt í þessu.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna það hversu undarlegt og í raun súrrealískt það er að hér skuli ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna mæla fyrir ströngustu gjaldeyrishöftum sem sést hafa í Evrópu frá falli Berlínarmúrsins og á sama tíma kemur þetta sama fólk hér upp og vill fella niður alla tolla á innflutning matvæla. Hvernig fá menn þetta til að koma heim og saman? Á sama tíma og hér eru boðuð gríðarlega ströng gjaldeyrishöft og ótrúleg einangrunarstefna ætla menn að fella niður alla innflutningstolla. Þetta kemur ekki heim og saman, enda er rökstuðningurinn býsna gloppóttur. Menn líta algjörlega fram hjá því að íslenskt matvælaverð er með því allra lægsta í Evrópu. Þar vitna ég bara í skýrslur Evrópusambandsins sjálfs, Eurostat, sem reglulega kannar og ber saman matvælaverð í Evrópu.

Hvers vegna gjaldeyrishöftin? Væntanlega vegna þess að það er skortur á erlendum gjaldeyri í landinu. Rökstuðningurinn er að við getum ekki aflað nægs gjaldeyris til að standa undir skuldum nema með gjaldeyrishöftum. Og er þá eðlilegt að á sama tíma skuli menn ekki hafa varið sumrinu í að bæta þetta frumvarp um gjaldeyrishöftin heldur í linnulausar árásir á íslenskan landbúnað sem sparar þjóðinni yfir 40 milljarða kr. af erlendum gjaldeyri á hverju ári?

Það vill nefnilega nánast undantekningarlaust gleymast þegar menn vega að íslenskum landbúnaði að það er ekki nóg að líta bara til útflutningstekna, gjaldeyristekna. Það þarf líka að líta á hina hliðina, sparnaðinn. Hver væri staða okkar til þess að afnema gjaldeyrishöft, hver væri staða íslensku krónunnar, ef búið hefði verið að innleiða þær breytingar sem menn boða nú hvað varðar landbúnaðinn fyrir efnahagshrunið? Sér í lagi er ég með ýmsa sósíaldemókrata í huga.

Ég hélt að þessi umræða hefði verið til lykta leidd með efnahagshruninu þegar við sáum svart á hvítu hversu miklu máli það skiptir að framleiða okkar eigin vörur og spara gjaldeyri. Það er ekki hægt annað en að setja þetta í samhengi við þessa umræðu um gjaldeyrishöftin nú. Menn óttast að afnám haftanna muni leiða til verulegs falls á gengi krónunnar. En hver eru rökin fyrir því? Fyrst og fremst virðast rökin byggjast á hræðslu, að menn séu svo hræddir um að þegar höftin verði afnumin muni þeir sem eiga krónur skipta þeim í stórum stíl yfir í erlenda mynt. Það kann að vera að slíkt gerist í fyrstu. En menn geta þá tapað gríðarlega miklum peningum á því að ganga of langt í að kaupa erlendan gjaldeyri allt of háu verði. Það er nefnilega ekki víst að til lengri tíma litið mundi gengi krónunnar veikjast ef gjaldeyrishöft yrðu afnumin, a.m.k. hlýtur að vera eðlileg krafa þegar menn leggja fram frumvarp sem þetta að þeir séu búnir að leggja raunhæft mat á það hvernig gjaldmiðillinn mundi þróast ef ekki kæmi til lagasetningar. Við skulum hafa í huga að lögin um gjaldeyrishöft áttu aðeins að vera til bráðabirgða. Á sama hátt og ýmsir nýir skattar ríkisstjórnarinnar og skattahækkanir áttu bara að vera til bráðabirgða, en voru það auðvitað ekki, áttu gjaldeyrishöftin bara að vera til bráðabirgða.

Hættan er nefnilega sú að þegar menn fara að aðlaga sig höftunum verður erfiðara og erfiðara að afnema þau og þetta sjáum við að er þegar byrjað að gerast. Hvernig ætla menn að afnema höftin eftir fimm ár ef þeir gátu það ekki eftir tvö ár? Það skortir mjög á skýringar á því.

Umfram allt eru gjaldeyrishöft, ég tala nú ekki um að ákveða að gjaldeyrishöftin eigi að vara í að minnsta kosti fimm ár í viðbót, yfirlýsing stjórnvalda um að þau hafi ekki trú á íslensku efnahagslífi. Þegar stjórnvöld eru búin að gefa út yfirlýsingu um að þau hafi ekki sjálf trú á eigin gjaldmiðli og eigin efnahagslífi, hvers vegna eiga þá aðrir að gera það? Hver hættir sér í fjárfestingu í landi þar sem stjórnvöld senda út slík viðvörunarmerki?

Ég held að það sé því rétt að endurskoða þetta frumvarp í heild, draga það til baka núna og búa til nýtt plan um það hvernig við afnemum gjaldeyrishöftin. Í því verður líka að felast fullkomin endurskoðun peningamálastefnu landsins. Hún hefur ekki virkað. Hún virkaði ekki árin á undan hruninu. Sama stefna hefur verið rekin af sömu mönnum í meira en áratug og hefur ekki skilað tilætluðum árangri, sama hvaða aðstæður hafa verið uppi, hvort sem það hefur verið þensla eða kreppa, efnahagsuppgangur eða efnahagshrun. Þessi leið hefur ekki virkað. Er þá ekki tímabært að endurskoða peningamálastefnuna og samhliða því að hún verður endurskoðuð og ný peningamálastefna mynduð að endurskoða þetta frumvarp um gjaldeyrishöft?

Við verðum vissulega að spara gjaldeyri og við verðum að framleiða meiri gjaldeyri. Þess vegna er svo grátlegt að þessi tvö og hálft ár, nærri þrjú, sem liðin eru frá efnahagshruninu hafi ekki verið nýtt til þess að efla útflutningsgreinarnar eða innlenda framleiðslu. Það voru nefnilega öll tækifæri til þess á meðan gjaldmiðillinn var svona veikur, svona lágt skráður og í gjaldeyrishöftum. Það hefur verið mikill áhugi á því að fjárfesta á Íslandi. Fyrir liggja fjárfestingarhugmyndir frá tugum erlendra og innlendra aðila, stór verkefni. Allir setja þó tvennt fyrir sig, þetta strandar allt á tveimur atriðum. Í fyrsta lagi er pólitíska óvissan, sérstaklega varðandi skattstefnuna. Þegar ríkisstjórn er á tveimur árum búin að hækka og breyta sköttum 100 sinnum og boðar að það sé rétt byrjunin eru ósköp fáir sem þora að fjárfesta við þær aðstæður. Hitt er óvissa um orkusköpun.

Ef þessi tvö atriði yrðu leyst, ef menn kæmust einhvern tímann að niðurstöðu um það hvernig þeir ætluðu að nýta þau tækifæri sem hér eru til að framleiða umhverfisvæna orku, þá umhverfisvænstu í heimi, og kæmu á lágmarksstöðugleika í stjórnarfari landsins, lágmarksstöðugleika í skattkerfinu, væri ekkert því til fyrirstöðu að hér gæti fjárfesting aukist mjög hratt, ekki hvað síst í útflutningsgreinum. Gjaldeyristekjur þjóðarinnar gætu þá jafnframt aukist mjög hratt. Við þær aðstæður er miklu auðveldara en ella að afnema gjaldeyrishöftin og gera það hratt.

Tækifærið hefur því ekki verið nýtt, tíminn hefur ekki verið nýttur til að undirbúa afnám gjaldeyrishafta. Tvö og hálft, þrjú ár hafa farið til spillis. Það er ekki seinna vænna að snúa við þessari stefnu og hefja undirbúning afnáms gjaldeyrishafta, m.a. með því að auka framleiðslu í landinu. Eins og ég nefndi áðan eru tækifærin og áhuginn til staðar. Við sjáum það á áhuga erlendra fjárfesta á að kaupa hér fasteignir og land, en það er það eina sem menn þora að fjárfesta í hér. Þeir treysta því þó að fasteignir verði ekki teknar eignarnámi, treysta því að ekki verði fundinn upp 30% fasteignaskattur. Atvinnuskapandi verkefni og ný framleiðsla er það flókið og það mikil áhætta í því fólgin að menn treysta sér ekki í það meðan stjórnvöld auka stöðugt á óvissuna. Verði breyting þar á, verði dregið úr óvissunni, er ekkert því til fyrirstöðu að auka hér framleiðslu og útflutning hratt og afnema gjaldeyrishöft.