139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[15:48]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það hjá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að það sé nauðsynlegur liður í því að afnema höftin að til staðar sé sannfærandi efnahagsplan og þá líka nauðsyn þess að peningastefna landsins fari í fullkomna endurskoðun eins og hv. þingmaður tók til orða. Ég vil af þessu tilefni fá álit hv. þingmanns, formanns Framsóknarflokksins, á þeirri niðurstöðu sem varð í vor og þeim efndum sem orðið hafa hjá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra þegar þetta mál var sett í hlé á vorþinginu. Þá var gert samkomulag milli flokka, stjórnarandstöðu og stjórnar, um að ákveðin vinna færi af stað í sumar, einmitt í þá veru sem hv. þingmaður var að nefna hér áðan. Gert var samkomulag um það í efnahags- og skattanefnd, allir nefndarmenn sammála, að í sumar, áður en þingfundir hæfust, skyldi óska eftir úttekt, eins og segir, með leyfi forseta:

„Skyldi óska eftir lagalegri og hagfræðilegri úttekt á frumvarpi ráðherra og einstökum greinum þess. Meta þarf hvort lögfesting þessi veitir Seðlabanka nægjanlegan sveigjanleika til að bregðast skjótt við leka á gjaldeyrishöftum samhliða losun þeirra samkvæmt þeirri áætlun sem fyrir ætti að liggja.“

Ég kannast ekki við að nokkur vinna af þessum toga hafi farið fram í efnahags- og skattanefnd í sumar. Ég hef ekki orðið vör við það hjá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, ég hef ekki séð að mikið fari fyrir því að slík vinna sé í gangi í ráðuneytinu.

Ég spyr hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson hvort hann sé sammála mér í því að það þurfi hreinlega að gera hlé á þessari umræðu núna og fara í þá vinnu sem kallað var eftir strax í vor, vinnu sem allir flokkar hér á Alþingi, hygg ég, eru reiðubúnir til að taka þátt í til að greiða fyrir þessu máli, greiða fyrir því að höftunum sé aflétt eins fljótt og auðið er — hvort hann sé sammála mér í því að nauðsynlegt sé að gera hlé á þessari umræðu, að málið sé kallað aftur inn í efnahags- og skattanefnd og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra geri það sem mælt var fyrir um þegar þinginu var lokið í vor og við afgreiðum (Forseti hringir.) málið þá í allt öðrum búningi.