139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[15:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er alveg rétt. Það voru gefin fyrirheit um að unnið yrði betur í þessu máli og það lagfært. Það hefur ekkert gerst í því í allt sumar. Hvers vegna skyldi það vera? Það er vegna þess að menn voru svo uppteknir í allt sumar við tvennt; annars vegar ótrúlega mikla og vel skipulagða herferð gegn íslenskum landbúnaði, helstu gjaldeyrissparnaðargrein okkar Íslendinga, og hins vegar að koma í veg fyrir alla nýja gjaldeyrisöflun. Þetta skýtur óneitanlega skökku við. Á sama tíma og menn hafa á engan hátt reynt að lagfæra þetta frumvarp, um ótrúleg gjaldeyrishöft og einangrunarstefnu, hafa þeir vegið að gjaldeyrissparnaði þjóðarinnar og framtíðargjaldeyrisöflun. Sjávarútvegurinn er í algjöru uppnámi. Ætla menn að afnema gjaldeyrishöft einhvern tímann með íslenskan sjávarútveg, helstu gjaldeyrisöflunargreinina, í uppnámi? Ég sé ekki hvernig menn ætla að gera það. Ætla þeir að afnema gjaldeyrishöft með helstu gjaldeyrissparnaðargreinina, landbúnað, í algjöru uppnámi? Ég sé ekki heldur hvernig menn ætla að fara að því.

Það sem þarf, eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á, er framtíðarsýn, plan sem menn þora að fjárfesta í. Grundvöllur slíks er stöðugleiki. Stjórnvöld verða að vinna sér inn tiltrú — þá trú að þau muni halda rekstrarumhverfi hér tiltölulega stöðugu og jafnframt að sýna fram á, og það er vel hægt, og raunar auðvelt, að rekstur íslensks samfélags til lengri tíma litið geti gengið mjög vel. Við erum að framleiða gríðarlega mikil verðmæti og flytja út og einnig að framleiða mikil verðmæti fyrir innlendan markað. Það er engin ástæða til þess að gjaldmiðill slíks lands, með svo sterka framleiðslu og svo mikinn útflutning, ætti að þurfa að vera í höftum. Kannski telja einhverjir ágætt að hér sé (Forseti hringir.) allt í uppnámi og höft til staðar, vegna þess að það hjálpar til við að þrýsta (Forseti hringir.) á önnur áhugamál.