139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[15:53]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ófært að hér sé til umfjöllunar frumvarp sem á að festa höftin í sessi til 1. janúar 2016 og það er líka ófært að samkomulag sem gert er á milli flokka á þingi, eins og gert var í vor, um að gera hlé á umræðunni og fara í ákveðna vinnu við það hvaða annað plan væri hægt að fara í til að aflétta höftunum hratt og vel — þetta samkomulag var gert af hálfu formanna flokkanna hér á þingi, hæstv. forsætisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra væntanlega líka, undir forustu efnahags- og viðskiptaráðherra skyldi maður ætla. Það er algerlega ófært að við séum aftur komin með þetta mál á dagskrá algjörlega óbreytt og jafnkolómögulegt og það var þá og ekki er staðið við það sem sagt hefur verið. Ef þetta er fyrirheit um það sem koma skal hér í vetur á þinginu þá blæs nú ekki mjög byrlega.

Það var sáttarhugur í stjórnarandstöðunni í vor (Gripið fram í.) þegar hún bauðst til að taka þátt í slíkri vinnu til að greiða fyrir því að efnahagur landsins gæti reist hratt og vel við. Í því fólst sáttatónn. Ekkert hefur gerst í þessu í sumar. Það er eiginlega alveg magnað að menn vogi sér að koma með málið algjörlega óbreytt í þeirri mynd með sömu uppgjöfinni og fólst í málinu í vor, sömu uppgjöfinni og þar var um að tefla.

Ég vil bara ítreka, og það gleður mig mjög að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sé mér sammála um það, að ekkert annað er hægt í stöðunni en gera hlé á þessari umræðu og menn standi við það sem sagt er og gert er og hér stendur þetta nú svart á hvítu á blaði.