139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum enn frumvarpið um gjaldeyrishöft og ljóst er að stjórnarandstaðan hefur sýnt málinu mikinn áhuga. Sama verður ekki sagt um stjórnarliða sem hafa gert allt annað en að fjölmenna í ræðustól til að ræða þetta stóra og mikilvæga mál. Ég á bágt með að trúa því að allir stjórnarþingmenn séu jafnákafir í að láta þetta frumvarp ná fram að ganga og þeir sem hér eru, þ.e. hæstv. ráðherra og örfáir aðrir þingmenn, því að flestir sjá að þetta mun frekar hafa skaðleg áhrif en vera til góðs.

Það sem vekur líka athygli mína, frú forseti, er að hvorki hæstv. ráðherra né formaður efnahags- og skattanefndar eru viðstaddir umræðuna. Vil ég gera athugasemd við það, virðulegi forseti, og óska eftir því að forseti athugi hvernig standi á því og væri mjög gott ef þeir ágætu aðilar gætu verið viðstaddir þegar við ræðum málið.

Það hefur ýmislegt komið í ljós við umræðuna, m.a. það að ekki er búið að vinna alla þá vinnu sem átti að vinna varðandi málið í sumar, þ.e. fara betur yfir það, vinna skýrslur og greinargerðir. Það virðist vera eftir ef marka má fylgiskjöl sem eru með frumvarpinu.

Ég held því að það væri í sjálfu sér langbest fyrir þingið og fyrir málið að það yrði tekið af dagskrá eða að viðræður hæfust nú þegar um hvernig gera mætti málið þannig úr garði að hægt væri að klára það á þinginu því að ljóst er að andstaða hefur verið við að klára það eins og það lítur út nú. Hægt er að fara ýmsar leiðir í því. Mikilvægast er að menn setjist niður og reyni að tala sig inn á að klára það á skynsamlegan hátt, ekki eins og það lítur út núna því að við það er allt of mikil andstaða.

Orðið gjaldeyrishöft er í sjálfu sér mjög lýsandi orð. Það þýðir að verið er að hefta eitthvað og verið er að hefta að gjaldeyrir geti farið úr landi. Það er fleira sem fylgir því. Í þessu tilviki virka höftin þannig að þeir sem hugsanlega vilja koma hingað til lands og fjárfesta velta því vitanlega fyrir sér hvað það þýðir ef núverandi ríkisstjórn ákveður að framlengja höft um fimm ár og engin vissa sé fyrir því að það verði ekki gert aftur nái sú ríkisstjórn að vera áfram við völd, sem við að sjálfsögðu vonum að guð gefi að verði ekki. Þar af leiðandi er mikil óvissa um stjórnmálaástandið eða viðhorfið til fjárfestinga þegar farið er fram með þessu móti.

Við þingmenn eigum samtöl við fólk úr atvinnulífinu og þá er stýra fyrirtækjum og samtökum í atvinnulífinu. Eitt af því sem nefnt er sem er til vandræða varðandi fjárfestingar er einmitt það að erfitt er að útskýra fyrir útlendingum hvað þessi gjaldeyrishöft þýða, hvað þau eiga að vera lengi, hvað í þeim felst o.s.frv.

Því er mjög mikilvægt, frú forseti, að menn lengi ekki í þessum höftum þannig að þau valdi meira tjóni en þau hafi búið til af góðum kostum, ef ég má orða það þannig, þetta er kannski ekki vel orðað.

Hins vegar verðum við að líta til þess að þrjú ár eru að verða frá hruni þegar líklega var réttlætanlegt að setja þessi höft á tímabundið. En alvaran felst í þessari framlengingu. Ég hef spurt að því, og ekki fengið svör, hvers vegna í ósköpunum sú leið er einfaldlega ekki farin að taka þær reglur sem Seðlabankinn setti niður og eru í gildi í dag og lögfesta þær tímabundið til einhvers tíma? Á meðan væri unnið frekar í málinu og það skoðað hvort þörf sé á þessu eða ekki. Ég hefði talið að það væri hin rétta leið, að höggva á þennan hnút með því að gera þetta tímabundið, þ.e. fara styttri leiðina í einhverja mánuði eða ár eða eitthvað slíkt, þannig að við séum ekki að senda þau skilaboð að þessi höft eigi að vera til langs tíma. Það er ekki gott og mun hafa skaðleg áhrif.

Það er voða freistandi og ósköp eðlilegt að blanda inn í þetta umræðu um gjaldmiðla og framtíðina í þessum málum þegar hæstv. efnahagsráðherra talar gjarnan ekki um krónuna án þess að segja að valið standi milli krónu í höftum eða evrugjaldmiðilsins. Miðað við hvernig staðan er í Evrópu, sem er vitanlega alvarleg og er ekki góð fyrir okkur Íslendinga heldur, má alveg fullyrða í því sambandi að miðað við stöðu evrunnar líti krónan nú bara þokkalega út þegar horft er á heildarmyndina.

Fram hefur komið og er nauðsynlegt að ítreka það að fullur vilji er til þess hjá þingmönnum sem hér hafa talað, og ég ítreka það enn og aftur að það er nánast eingöngu stjórnarandstöðuþingmenn sem hafa talað í þessari umræðu, að skoða gjaldmiðlamálið í heild sinni og velta öllum steinum við. Í þá útréttu hönd ættu stjórnarliðar vitanlega að taka og setja af stað vinnu við það verkefni, allt til þess að koma í veg fyrir að við þurfum — við þurfum þess náttúrlega ekki — að búa við þessi höft til lengri tíma.

Fram kom hjá mörgum þingmönnum í umræðum í gær og í dag að grundvallarforsendur fyrir því að hafa samþykkt höftin voru þær að þau yrðu til skamms tíma. Því er eðlilegt að margir þingmenn sem tóku þátt í því séu annarrar skoðunar í dag þegar verið er að lengja í höftunum.

Ég nefndi atriði í gær sem ég hef kannski ekki miklar áhyggjur af en finnst í raun alveg fáránlegt og ætla að nefna það enn og aftur til að undirstrika að ástæða er til að skoða það enn frekar. Í breytingartillögum með frumvarpinu er lagt til að ákvæði um skilaskyldu á gjaldeyri verði breytt. Hluti af því er jákvæður í rauninni, að skila afgangsgjaldeyri þegar heim er komið, en að þurfa að skila gjaldeyri ef viðkomandi þarf að hætta við ferð finnst mér mjög sérstakt, því að mjög margir, ég segi ekki flestir en mjög margir kjósa að fara þá ferð skömmu síðar eða í það minnsta eitthvað seinna. Töluverður kostnaður fylgir því að kaupa gjaldeyrinn aftur. Ég fæ ekki séð að fólk eigi að fá endurgreiddan kostnaðinn við að skila honum.

Þetta er dæmi sem ég held að sé óþarft. Ég sé ekki neinar tölur í þeim gögnum sem ég hef með frumvarpinu um hversu umfangsmikil viðskipti, ef ég má orða það þannig, eða umfangsmikill þessi gjaldeyrir er sem verður til með þeim hætti að þeir sem ætla utan nýti hann ekki vegna veikinda eða að fella þurfi ferð niður. En í slíkum tilfellum hefði átt að sleppa þessu. Þá hefði verið einu atriðinu færra til að takast á við hérna í þinginu.

Frú forseti. Í grunninn vil ég segja í þessari umferð að ég vil eindregið mælast til þess að leitað yrði leiða til að ná þessu máli á þann stall að um það geti náðst þokkaleg sátt. Ég get ekki séð að sátt sé um það eins og það lítur út núna. Því er vel þess virði að setjast niður og athuga hvort það séu lausnir, ekki síst í ljósi þess sem búið er að segja og skrifa um málið. Boltinn er hjá stjórnarliðum. Ég vona að hér á eftir komi eitthvert vink, ef ég má orða það svo, um að hægt sé að setjast niður og ná einhverri lendingu um hvernig við klárum umræðurnar um málið.

Framlenging á höftum í því formi sem verið er að leggja til er ekki til góðs. Það mun skaða samfélag okkar til lengri tíma, og skamms tíma, því að þetta hefur áhrif þegar í dag.

Frú forseti. Ég ítreka að æskilegt er að ráðherra og formaður efnahags- og skattanefndar séu viðstaddir umræðuna.