139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:54]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú væri fínt að hafa lagaskrifstofu Alþingis. Nú væri fínt að hafa hér eitthvert apparat innan þingsins til að styðja við það sem hefur verið samþykkt áður. Nú hefur komið í ljós eftir að þetta frumvarp kom á dagskrá, sem var samþykkt hér í vor með þessu samkomulagi sem þingmaðurinn fór yfir, að málið er ekki þingtækt. Hér erum við búin að standa bráðum í tvo daga að ræða þetta mál og það er ekki þingtækt vegna þess að sú endurskoðun sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir fór yfir var ekki unnin í sumar. Þessari ríkisstjórn mistekst allt. Málið er ekki þingtækt, frú forseti, með þessar upplýsingar í farteskinu er ekki annað hægt en að slíta þingfundi og taka málið af dagskrá.

Að lokum af því að eitt andsvar er eftir hjá þingmanninum sem var með framsöguræðu: Hvers vegna telur hún að ríkisstjórnin leggi ofurkapp á að vera bæði með belti og axlabönd (Forseti hringir.) og framlengja höftin til 1. janúar 2016 (Forseti hringir.) þegar seðlabankastjóri (Forseti hringir.) kemur fram í dag og segir (Forseti hringir.) að það sé u.þ.b. verið að (Forseti hringir.) taka þau af?