139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:57]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna þar sem farið var vítt og breitt yfir sviðið. Mig langar að spyrja hv. þingmann að því er varðar endurskoðun á peningamálastefnunni sem hún kom inn á í ræðu sinni. Gefum okkur að önnur ríkisstjórn væri við völd í landinu sem vildi afnema gjaldeyrishöftin á mun skemmri tíma en hér er kveðið á um, þá mundi Seðlabankinn væntanlega samkvæmt peningamálastefnu bankans — við getum nokkurn veginn gefið okkur það — stórhækka stýrivexti samhliða slíku ferli. Það mundi þá leiða til þess að þær fjölskyldur í landinu sem eru hvað skuldugastar í heiminum mundu þurfa að greiða fyrir það mjög háar fjárhæðir í ljósi þess að fjármagnskostnaður þeirra mundi hækka allverulega. Segjum sem svo að af þessari ástæðu einni, fyrir utan rekstrarumhverfi atvinnulífsins sem er mjög erfitt þar sem afla þarf lánsfjár á mjög óhagstæðum vöxtum eins og við þekkjum, vildi sú ríkisstjórn aflétta þessum höftum þá væri þetta væntanlega ekki æskilegar afleiðingar þeirrar stefnu.

Ég spyr hv. þingmann hvort hún hafi velt þessu fyrir sér þegar hún mælir fyrir því að við eigum að skoða peningamálastefnuna upp á nýtt, vonandi þá þvert á flokka. Ég tel að þetta sé eitt atriði sem við þurfum að hafa í huga, a.m.k. við sem í orðu kveðnu viljum og ætlum okkur í framtíðinni að aflétta gjaldeyrishöftum hér á landi, vegna þess sem hefur komið svo skýrt fram í dag að ef þessi áform ríkisstjórnarinnar verða að veruleika er verið að færa íslenskt efnahagslíf og íslenskt þjóðlíf aftur um áratugi, því miður.