139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:13]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að fylgja eftir þeirri ósk sem var borin upp fyrr í dag af hv. þm. Birki Jóni Jónssyni og er nú ítrekuð af hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni.

Við þingmenn erum með í höndunum frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldeyrismál og tollalög sem afgreitt var á vorþingi. Þar kom fram í greinargerð að samkomulag væri um að halda skyldi nefndafundi áður en þingfundir hæfust nú í september og fram færi mat á frumvarpinu sem nú er verið að ræða. Að mínu mati, frú forseti, er málið ekki þingtækt af þessum sökum því að ríkisstjórnin hefur ekki gert neitt með þetta samkomulag og engar nefndir hafa fundað um þetta mál og hvað þá heldur að úttekt hafi verið gerð á frumvarpinu.

Ég fer því fram á það við frú forseta að umræðan verði stöðvuð, (Forseti hringir.) málið sent til efnahags- og skattanefndar og (Forseti hringir.) þingfundi frestað.