139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:16]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með fundarstjórn forseta á þessum degi. Staðreyndin er sú að þingmenn hafa hver á fætur öðrum komið hingað upp og innt forsetann eftir svörum við því hvort hún hyggist beita sér fyrir því að gert verði hlé á þessum fundi til að ræða þá staðreynd að ekki hefur verið staðið við samkomulag sem er skjalfest á þskj. 1750. Það er ekkert hægt að draga það í efa og þess vegna fer ég fram á það við frú forseta að hún svari í það minnsta þeim fyrirspurnum sem við þingmenn höfum ítrekað lagt fram.

Það er hálfkjánalegt að koma hingað upp skipti eftir skipti og fá ekkert svar frá hæstv. forseta um þá beiðni okkar að þessari umræðu verði frestað og menn ræði þessi mál. Það er þinginu ekki til sóma að horfa upp á umræðu sem þessa, sérstaklega þegar við höfum það skjalfest að stjórnarliðar eru því miður að ganga á bak orða (Forseti hringir.) sinna gagnvart þeim samningum sem gengið var að (Forseti hringir.) síðastliðið vor.