139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:21]
Horfa

Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Forseti vill vekja athygli hv. þingmanns á því að tími hans er liðinn. Tímamæling fer fram á borði forseta þegar klukkan í ræðupúlti bilar. Hv. þingmaður hefur lokið (GÞÞ: Virðulegur forseti.) því að ræða hér um fundarstjórn forseta. Til þess hafa menn tvisvar sinnum eina mínútu í senn og biður forseti hv. þingmann að víkja úr ræðustól svo að næsti þingmaður, hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir, sem hefur óskað eftir því að ræða fundarstjórn forseta, komist að í púltinu. (GÞÞ: Virðulegi forseti. Ég vil mótmæla því að hér sé einhver blekkingaleikur með klukkuna. Við erum búin að venjast hér ákveðinni leið. Ef það er svo að það er einhver allt önnur tímataka á borði virðulegs forseta en er hér í borðinu er það ekki gott. Ég vil hvetja virðulegan forseta til þess að halda reglur sem hafa verið í gildi mjög lengi. Ég er búinn að vera hér það lengi að ég kann (Forseti hringir.) á þessa klukku. )

Að gefnu tilefni vill forseti upplýsa að þegar klukka í ræðupúlti virkar ekki, og það kemur nokkuð oft fyrir, fer tímataka fram hér á stóli forseta.