139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:21]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég treysti því að ég verði látin vita þegar ég á að víkja úr ræðustól ef ég verð hér þaulsetin.

Ég vil eins og aðrir gera athugasemd við fundarstjórn forseta af sömu ástæðu og áður hefur verið nefnd. Ég vil þó bæta við að í gær flutti ég ræðu í þessu máli. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra var viðstaddur, sat hér í sæti sínu. Ég spurði hæstv. ráðherra hvað liði þeirri vinnu sem sett hefði verið af stað og hefði átt að inna af hendi í sumar. Ég átti von á að hæstv. ráðherra mundi svara því. En hann var fljótur að setja á sig hlaupaskóna og hafði væntanlega öðrum hnöppum að hneppa. Ég fékk ekkert svar við þessu.

Ég óska eftir því, virðulegi forseti, að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra verði kallaður til umræðunnar þannig að við getum fengið (Forseti hringir.) svör frá honum.