139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:24]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til að ítreka þau vonbrigði mín með fundarstjórn hæstv. forseta, að hún skuli ekki virða viðlits þær spurningar sem við margir þingmenn höfum ítrekað lagt fram í dag, um það hvort hæstv. forseti sé reiðubúinn að beita sér fyrir því að þessari umræðu verði frestað þannig að forustumenn þingflokka eða stjórnmálaflokka geti rætt um þá stöðu sem uppi er. Mér er til efs að hægt sé að finna þá sveitarstjórn í þessu landi þar sem forseti bæjarstjórnar er spurður spurninga að hann mundi leyfa sér að svara ekki spurningum bæjarfulltrúa. Á hvers lags samkomu erum við hér?

Hvað stendur í vegi fyrir því, frú forseti, að sjálfsögðum spurningum sé svarað um það hvernig við ætlum að halda þingstörfum áfram. Þetta er farið að minna óþægilega mikið á annað mál sem tók tvö og hálft ár, sem eingöngu var vegna stífni. Menn hefðu getað klárað það mál á mun skemmri tíma eins og við þekkjum, ég ætla ekkert að minnast á hvaða mál það er. Ég skora á frú forseta að verða við tilmælum og áskorunum okkar (Forseti hringir.) um að svara þeim spurningum sem bornar hafa verið fram.