139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:48]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi samkomulagið þannig að það sé kristaltært um hvað var samið í vor ætla ég að lesa úr framsöguræðu formanns efnahags- og skattanefndar þegar mælt var fyrir frumvarpinu sem framlengdi núgildandi höft til 30. september, með leyfi forseta:

„Það varð niðurstaða samninga við þinghlé að nauðsynlegt væri að nýta sumarið til að fara vel yfir þetta mál, kalla eftir óháðum lögfræði- og hagfræðiálitum, bæði um hvort frumvarpið eins og það er tryggi Seðlabanka Íslands nægilegt svigrúm til þess að setja fyrir leka á höftunum, þ.e. undanskot, eða sniðgöngu við höftin, en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lagt mikla áherslu á að Seðlabankinn þurfi að hafa mikið og gott svigrúm í því efni. Það hefur bankinn haft.“

Þetta er það sem um var samið hér fyrir þinghlé. Það getur ekki verið skýrara, bæði í greinargerð með frumvarpinu og í framsögu hv. þingmanns. Ég spyr: Hvers vegna hefur þessi úttekt ekki verið gerð og þessi álit ekki verið sköffuð?