139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:51]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Magnúsi Orra Schram er nokkur vorkunn að reyna að tala sig út úr þessu klúðurmáli. Varðandi álitin eða úttektirnar, sem áttu að fara fram í sumar og fóru ekki fram, held ég að þurfi ekki mikinn skilning á íslensku máli eða því sem venja er hér í þinginu til þess að átta sig á því hvað felst í lögfræðilegri og hagfræðilegri úttekt. Það er ekkert rosalega flókið. Það er einhvers konar skýrsla, einhvers konar álitsgerð eða eitthvað þess háttar. Í framsöguræðu formanns efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Helga Hjörvars, var talað um álit. Ég held að eitthvað meira hafi falist í því, (Gripið fram í.) það hljóti að hafa verið meira en að fá kannski eins og einn mann á einn fund til að spjalla um þetta. Ég verð að segja að fram hjá því verður ekki komist að þarna var um að ræða fyrirheit, loforð, samningsskilmála, sem ekki var staðið við.