139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í sambandi við úttektar- eða álits-spurninguna finnst mér nú hv. þm. Magnús Orri Schram hafa gripið í eitthvert grennsta hálmstrá sem ég hef séð í rökræðum hér í þinginu. Nóg um það.

Varðandi það sem menn sögðu fyrir kosningarnar 2009, þegar við vorum á upphafsskrefum samstarfs okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, stendur það sem þar sagði. Síðan hefur auðvitað mjög margt breyst. Var ekki tilkynnt um það um daginn að samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn væri liðið undir lok eða komið að endamörkum? Var ekki tilkynnt um það? Það má segja að þeir möguleikar sem menn veltu upp í kosningabaráttunni 2009 séu sumir einfaldlega horfnir vegna þess að atburðarásin hefur verið önnur en við lögðum upp með á þeim tíma og lögðum til á þeim tíma. Það má segja að vatnið sé runnið undir brúna, svo að ég noti vonda þýðingu á ensku máltæki.