139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:59]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka skemmtileg andsvör og áhugaverðar umræður í þingsal. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að mér mundi líka það betur ef áætlun Seðlabankans um afnám hafta væri metnaðarfyllri, ef menn mundu ganga harðar fram og taka ákveðnari skref í þá átt.

Eftir því sem fram kom í nefndinni eru vissir áfangar áætlunarinnar meðvitað ekki tímasettir. Menn telja að það henti betur hinni andlegu baráttu við eigendur jöklabréfanna að áætlunin sé ekki tímasett, það sé farsælla til árangurs. Það get ég upplýst hér, enda er það ekkert leyndarmál. Menn eru í stríði. Togstreita er um með hvaða hætti eigi að fá aðila til að losa þessi jöklabréf og skynsamleg leið til þess er að tímasetja ekki áfangana.