139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:00]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Komið hefur fram ósk um að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sitji hér í Alþingishúsinu meðan þessi mál eru á dagskrá en hann hefur ekki enn komið í hús. Ég minntist á það í ræðu minni fyrr í dag að ég væri með spurningar fyrir ráðherrann sem lytu að því hvort búið væri að bera þetta nýja frumvarp undir erlenda aðila sem við stöndum í þjóðréttarlegum skuldbindingum við. Ráðherrann hefur ekki séð sér fært að koma þrátt fyrir óskir þar um. Tilkynnti forseti hér á stóli áðan að verið væri að reyna að fá hann í hús. Það er mjög alvarlegt að ráðherrann skuli ekki vera hér og er kannski merki um að það samkomulag sem var gert á milli stjórnarflokkanna í vor áður en þingi var slitið, um að þetta ætti að fara í skoðun og í nefnd, gildir ekki. Ráðherrann þorir þá kannski ekki að láta sjá sig í húsinu, ég skal (Forseti hringir.) ekki segja.

(Forseti (ÁI): Forseti vill upplýsa að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er erlendis og er ekki væntanlegur til landsins fyrr en á föstudagsmorgni.)

Virðulegi forseti. Þar sem málið er ekki þingtækt er enn frekar ástæða til að taka það af dagskrá þegar upplýst er í lok annars dags umræðunnar að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er ekki á landinu. Hví var þessu máli ekki frestað til föstudags þannig að ráðherrann gæti verið viðstaddur þessa umræðu? Margt er skrýtið í kýrhausnum og þetta sýnir vel þá óstjórn sem ríkisstjórnin fer fyrir og ósamkomulagið á öllum sviðum. Ja, það var gott að það kom í ljós, þegar farið er að skyggja úti, að hæstv. ráðherra er ekki á landinu.

Í greinargerð með lögunum nr. 134/2008, hinum svokölluðu gjaldeyrishaftalögum, sem sett voru áður en ég var kosin á þing, var farið nákvæmlega yfir þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Íslendingar þurftu að taka tillit til þegar gjaldeyrishaftalögin voru sett. Ég fór yfir það í dag. Til dæmis var skoðað hvort það frumvarp mundi brjóta á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, hvort það mundi brjóta á samþykktum sem Ísland er aðili að hjá Efnahags- og framfarastofnuninni og hvort Alþjóðaviðskiptastofnunin mundi gera athugasemdir. Þetta er mjög ítarlega gert í þessari greinargerð. Þess ber að geta að þá ríkti neyðarástand á Íslandi.

Þegar þetta er skoðað nú, þegar íslenskt efnahagslíf er komið fyrir vind, þegar við höfum fengið lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og gjaldeyrisfjármögnun virðist vera í lagi — gjaldeyrisvaraforðinn okkar dugar út árið 2016, að sögn seðlabankastjóra — er mjög einkennilegt að farið skuli af stað með að lögleiða gjaldeyrishöftin til ársbyrjunar 2016, í ljósi þess sem maður les í 4. kafla EES-samningsins.

Í 2. og 3. mgr. 43. gr., sem kveður á um að hindrun megi vera á frjálsu flæði fjármagns á milli landamæra, segir, með leyfi forseta:

„Leiði fjármagnsflutningar til röskunar á starfsemi fjármagnsmarkaðar í aðildarríki EB eða EFTA-ríki getur hlutaðeigandi samningsaðili gripið til verndarráðstafana á sviði fjármagnsflutninga.

Breyti þar til bær yfirvöld samningsaðila gengisskráningu sinni þannig að alvarlegri röskun á samkeppnisskilyrðum valdi geta hinir samningsaðilarnir gert nauðsynlegar ráðstafanir um mjög takmarkaðan tíma til að vinna gegn áhrifum breytingarinnar.“

Þarna kemur fram að það eru mjög þröng skilyrði sem má nota til að beita gjaldeyrishöftum.

Í 4. tölulið 43. gr. segir, með leyfi forseta:

„Eigi aðildarríki EB eða EFTA-ríki í örðugleikum með greiðslujöfnuð eða alvarleg hætta er á að örðugleikar skapist, hvort sem það stafar af heildarójafnvægi í greiðslujöfnuði eða því hvaða gjaldmiðli það hefur yfir að ráða, getur hlutaðeigandi samningsaðili gripið til verndarráðstafana, einkum ef örðugleikarnir eru til þess fallnir að stofna framkvæmd samnings þessa í hættu.“

Þetta var ákvæði sem Íslendingar byggðu upphaflegu neyðarlögin 2008 á. Þetta er ekki í gildi í dag, á engan hátt, en á þessu virðist vera byggt í þessu lagafrumvarpi. Ég tel að það sé skýrt brot á EES-samningnum að þetta frumvarp sé lagt hér fram, og að EES-samningurinn sé í verulegri hættu. Ég tel að ef frumvarpið verði gert að lögum, með þessari veikburða ríkisstjórn, þurfi ESA að taka það tafarlaust til úrskurðar á nýjan leik og ríkisstjórnin verði rekin heim með það eins og svo mörg önnur.