139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:13]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fer ekki fram hjá neinum sem fylgist með fréttum og umræðum á Alþingi að það er hárrétt sem þingmaðurinn sagði að Samfylkingin leggur allt kapp á að koma íslenskri þjóð inn í Evrópusambandið og það má ekkert skyggja á þá fyrirætlanir. Það er alveg ljóst.

Það var athyglisverð þessi lýsing sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir hafði af fundi norrænna embættismanna varðandi það að við gætum hafið samstarf við Norðurlöndin. Íslendingar og Norðmenn eiga mikilla sameiginlegra hagsmuna að gæta á norðurslóð. Ég vildi gjarnan sjá að Norðmenn kæmu til að hjálpa okkur við olíuleit og rannsóknir á Drekasvæðinu. Hægt væri að gera framvirkan samning, og þá jafnvel að auka gjaldeyrisvaraforðann okkar eða á einhvern hátt að borga upp þau lán sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er búinn að sturta yfir íslenska þjóð og Seðlabankann. Það er margt í spilunum.

Komið var fram með nýtt slagorð í þinginu í dag sem mér finnst mjög einkennandi fyrir Samfylkinguna, „áfram króna í höftum eða evra“. Þetta frumvarp sýnir að áfram á krónan að vera í höftum og svo á líklega vera búið að troða þjóðinni inn í Evrópusambandið 2016 þegar þetta er orðið að veruleika hér og þetta frumvarp fellur úr gildi. Því fyrr má nú vera tímalengdin á því sem Samfylkingin sér fyrir sér að binda krónuna í höftum. Það er ákveðin andleg kúgun sem á sér stað með þessu frumvarpi, það er ekki hægt að segja annað, því að seðlabankastjóri talaði á fundi í dag og sagði að það yrði mjög skammt þar til höftunum yrði létt. Hæstv. seðlabankastjóri er farinn að tala mjög í andstöðu við sjálfan sig og svo er Alþingi að grípa með freklegum hætti, eins og hv. þm. Lilja Mósesdóttir kom inn á í ræðu sinni í dag, inn í ákvarðanir Seðlabankans með því að lögfesta þessar reglur sem Seðlabankinn hefur sett sér. Það er inngrip inn á svið annars stjórnvalds.