139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég minnist þess þegar þetta mál var til umræðu hér á þingi í vor að við hv. þm. Vigdís Hauksdóttir áttum nokkur orðaskipti út af tengslum eða meintum tengslum málsins sem nú er til umræðu og Evrópusambandsumsóknarinnar. Ég vildi í tilefni af því og í tilefni af því að hér fannst stjórnarliði, þingmaður úr Samfylkingu, sem var tilbúinn að tala í þessu máli, hv. þm. Magnús Orri Schram, spyrja hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur hvort hún hefði ekki sama skilning og ég á ræðu hv. þm. Magnúsar Orra Schrams hér áðan, að hann sæi ekki fyrir sér möguleika á því að afnema höftin á gjaldeyrismarkaði nema við gengjum í Evrópusambandið. Ræðu hans skildi ég með þeim hætti. Ég vildi spyrja hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, sem manna mest hefur fjallað um Evrópusambandsmál í þinginu, hvort hún væri ekki sama sinnis, hvort hún hefði ekki sama skilning á ræðu hv. þm. Magnúsar Orra Schrams og ég.

Það skýrir auðvitað stuðning Samfylkingarinnar við þetta mál. Þetta er eins konar gaffall sem er verið að setja á okkur í þinginu og þjóðina í þessu sambandi: Annaðhvort búið þið við þessi ferlegu gjaldeyrishöft áfram — að eilífu — eða að þið farið með okkur í Evrópuleiðangurinn, samþykkið aðild að Evrópusambandinu og takið með tíð og tíma upp evru.

Þetta vildi ég spyrja hv. þingmann um. Ég ætlaði að koma fleiri sjónarmiðum að en geri það í síðara andsvari.