139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hv. þm. Vigdís Hauksdóttir deilum mati okkar á því hvað býr að baki stuðningi Samfylkingarinnar við þetta frumvarp. Það á að halda hér höftunum þangað til við verðum aðilar að Evrópusambandinu samkvæmt ósk Samfylkingarinnar. Samfylkingin sér engar aðrar leiðir til að afnema höftin en að við gerumst aðilar. Það er þeirra þrönga sýn á þetta.

Þá veltir maður fyrir sér og ég bið hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að leiða aðeins hugann að því og svara ef hún getur: Á hvaða vegferð er Vinstri hreyfingin – grænt framboð? Ekki segist Vinstri hreyfingin – grænt framboð vilja aðild að Evrópusambandinu. Hverjar eru skýringarnar á því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð styður þetta þingmál þegar hún hefur ekki sömu sýn og Samfylkingin, að Evrópusambandsaðild færi okkur lausn á málinu? Ég velti þessu töluvert fyrir mér. Ekki hefur umræðan undanfarna tvo daga hjálpað mér mikið í því sambandi vegna þess að lítið hefur sést til hv. þingmanna Vinstri grænna í þessari umræðu. Ég minnist þess að hv. þm. Lilja Mósesdóttir telst ekki með eins og hún sjálf veit manna best og þó að hún hafi verið kjörin á þing fyrir Vinstri græna sagði hún skilið við þann flokk fyrir nokkru (Gripið fram í: Þingflokk.) — þingflokk, ég biðst afsökunar. Þá spyr ég: Hvar er þingflokkur Vinstri grænna í þessari umræðu? Hv. þm. Björn Valur Gíslason kom í andsvar einu sinni í dag en aðrir úr þingflokknum hafa ekki sést í umræðunni. Hv. þm. Björn Valur Gíslason bar eingöngu fram spurningar en kom ekki með nein svör. (Forseti hringir.) Afstaða vinstri grænna er okkur því enn þá nokkuð óljós.