139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er eiginlega besta spurning sem ég hef fengið í dag. Einmitt, hvar eru vinstri grænir? Hvar eru hinir týndu þingmenn Vinstri grænna og hvar er stefna Vinstri grænna? Hvar er stefnan sem þeir lögðu upp með fyrir kosningar, að þeir vildu ekki inn í Evrópusambandið og höfnuðu því alfarið? Síðar hefur komið í ljós að hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon og hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir voru búin að semja um að ganga þá leið að sækja um aðild að Evrópusambandinu fyrir kosningar 2009 þegar Vinstri grænir gengu fram með stefnuna „aldrei ESB“ og fengu ómælt fylgi út á það slagorð — aldrei ESB!

Hvar Vinstri grænir standa nákvæmlega gagnvart þessari umræðu er bara eins og í öðrum málum. Vinstri grænir sjást ansi lítið hér því að Samfylkingin keyrir mál af mikilli hörku í gegnum þingið, þá er ég að tala um þessi ESB-mál sem snúa að umsókninni, því að ekki má styggja björninn í austri.

Það er einhvern veginn þannig að vinstri grænir eru orðnir kúgaðir í þessu samstarfi. Kannski hentar það þeim mjög vel t.d. út af því sem er að gerast í Seðlabankanum. Við vitum hver er fjármálaráðherra, hæstv. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna. Honum hentar mjög vel að vera með puttana í framkvæmdum varðandi fjármálagjörninga hér á landi. Það kom í ljós í svari mínu hér í gær í sambandi við Seðlabanka Íslands að það hafa verið fluttar inn aflandskrónur fyrir tæpa 12 milljarða, bara á árinu 2010. Það má ekki upplýsa hvaða aðilar það eru sem fá að nota aflandskrónur hér á landi. Það er sveipað dulúð. Það hefur oft verið svo með vinstri menn að þeir vilja hafa málin með þeim hætti til að geta togað í spotta hér og þar til að hygla vinum sínum.

Það eru náttúrlega kratarnir í Vinstri grænum sem fyrst og fremst fylgja þessum frumvörpum Samfylkingarinnar eftir. Ég held að ég hafi þetta mitt (Forseti hringir.) lokasvar: Vinstri grænir eru nokkuð týndir í allri (Forseti hringir.) þessari umræðu.