139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér áfram þrjú eða fjögur nefndarálit úr hv. efnahags- og skattanefnd. Því miður er formaður nefndarinnar og framsögumaður meiri hluta efnahags- og skattanefndar ekki viðstaddur. Ég óska eftir því af því ég ætla að ræða þetta nefndarálit að frú forseti óski eftir nærveru hv. þm. Helga Hjörvars þó að ég viti að það kunni að brjóta ákveðna friðhelgi á heimili hans. Þetta er afskaplega ófjölskylduvænn tími til að ræða þingmál — það er kvöldmatur á flestum heimilum í landinu. Ég spyr hvort hans sé að vænta.

(Forseti (ÁI): Það skal upplýst, hv. þingmaður, að hv. þm. Helgi Hjörvar hefur fjarvist í dag.)

Nú, þá getur orðið vandi að ræða málið, alla vega nefndarálit hans og þeirra sem á því eru. Ég ætla þá að ræða nefndarálit 1. minni hluta. Í salnum er hv. þm. Lilja Mósesdóttir sem skrifaði undir það. Ég hef í sjálfu sér ekkert mikið við það að athuga og er að mörgu leyti sammála því sem hún segir. En ég ætla að ræða um gjaldeyrishöftin almennt og geta þess að umræða um gjaldeyrishöft er umræða um framtíð Íslands. Það er bara svo einfalt.

Ég man þá tíð að gjaldeyrishöft voru náttúrulögmál. Þau voru nánast bara eitthvað sem var. Engum datt í hug að afnema gjaldeyrishöftin, það var ekki hægt. Maður upplifði að sjálfsögðu alla spillinguna í kringum þau. Nú getur maður sagt frá því í brandarastíl eins og ég sagði í 1. umr. við þetta mál. Það er mjög margt sem virkar sem hreinn brandari í dag en ég sé það koma upp aftur, frú forseti, í stórum stíl. Það var mjög mikið svindl í gangi þá og núna er að koma upp heilmikið svindl í kringum gjaldeyrishöftin vegna þess að þau bjóða upp á svindl. Síðan er smásmugulegt eftirlit með borgurunum. Við stefnum í einhvers konar sovétkerfi þar sem stóri bróðir er að kíkja ofan í vasa hjá túristum sem koma til landsins o.s.frv. Þetta er því mjög hættulegt kerfi á allan máta.

Ég var í verslun um daginn, stórmarkaði. Á undan mér voru túristar sem tala þýsku. Konan tjáði manninum — ég skil þýsku og hlustaði óvart á það — að hún hefði gleymt kortinu sínu heima, hvort hún mundi ekki lenda í vandræðum. Hún sagðist þá bara borga með evrum, þau ættu evrur. Þau komu að kassanum og borguðu með evrum. Yfir borðið sigldi 50 evruseðill. Ég velti fyrir mér: Hvað varð eiginlega um þennan 50 evruseðil? Stúlkunni á kassanum var náttúrlega í lófa lagið að stinga honum bara í vasann og borga sjálf reikninginn — kaupa sem sagt gjaldeyri. Það merkilega, frú forseti, er að ég upplifði allt í einu nokkuð sem ég hafði upplifað áður, um 1960 eða 1970. Þá var þetta nákvæmlega eins. Þá gengu menn að túristum hérna niðri í bæ og spurðu hvort þá vantaði ekki krónur og seldu krónur og keyptu gjaldeyri. Það var varla brotist inn í hús í gamla daga að ekki væri sagt að stolið hefði verið svo og svo miklum gjaldeyri. Öll heimilin í landinu voru með gjaldeyri heima hjá sér. Hvað halda menn að sé að gerast niðri í bæ núna? Bærinn er fullur af túristum með evruseðla, dollaraseðla o.s.frv. Margir borga reyndar með korti. Ég geri ekki ráð fyrir að þeir fari að kaupa krónur á markaði eða úti á götu en ef gengið er pínulítið hagstæðara en á kortunum þeirra má vel vera að þeir geri það, ég átta mig ekki á því.

Þetta er allt of stuttur tími, frú forseti. Ég ætlaði að fara í gegnum það hvernig gjaldeyrishöft þurrka atvinnulífið upp og hamla fjárfestingum og koma í veg fyrir sköpun atvinnu og valda doða og vonleysi og siðspillingu sem ég er búinn að nefna hérna í nokkrum dæmum. Seðlabankastjóri telur líka brýnt að losa gjaldeyrishöftin. Ég kemst ekki inn á það, frú forseti, þannig að ég þarf víst að ræða þetta aftur ítarlegar.