139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að það eigi að myndast samstaða meðal allra þingmanna, allra flokka á þinginu, um leiðir til að leysa þetta vandamál. Samstaða allra þingmanna að ákveðinni lausn mundi gefa þeirri lausn þann trúverðugleika og það traust sem þarf. (MÁ: Hvaða lausn?) Þetta hefur verið reynt í hv. félagsmálanefnd með góðum árangri varðandi frumvörpin um skuldavanda heimilanna og umboðsmann skuldara. Ég held að þetta sé hægt. En þar sem lausn á svona vanda er fyrst og fremst sálfræðileg … (MÁ: Hvað áttu við, hv. þingmaður?) Ég er að reyna að koma því að. Ég tel að þarna þurfi sálfræðilega lausn. Menn þurfa að setja sig í spor þeirra sem t.d. eiga krónubréf á Íslandi og geta ekki nálgast þau. Við þurfum að setja okkur í spor Íslendinga sem óttast það verið sé að fara illa með fjármagn þeirra, spariféð, og við þurfum að setja okkur í spor þeirra sem vinna á markaðnum. Við þurfum sem sagt að vinna með sálfræðilegum og markaðstengdum lausnum. Þær eru til. Til dæmis væri hægt að afnema höftin á morgun klukkan þrjú. Það væri hægt, þá gerist eitthvað. Það sem gerist er háð því hvaða trú menn hafa á gjaldmiðlinum eftir það. Til dæmis mundi samstaða allra þingmanna á Alþingi auka þá trú og til dæmis það að menn hafi eitthvert markmið í framtíðinni til frambúðar. Slíkt mundi líka auka þá trú. Reyndar getur þetta verið dálítið erfitt með núverandi ríkisstjórn að mynda eitt markmið því að hún er með tvö markmið, við þekkjum það, Evrópusambandið annars vegar og kyrrstaða og skattlagning hins vegar. Ef allt Alþingi (MÁ: Lausnin er Sjálfstæðisflokkurinn.) tæki sig saman og myndaði lausn, fyndi reglur til lausnar á gjaldeyrisvandanum mundi það öðlast traust. (Gripið fram í: Hvaða lausn?)

(Forseti (ÁI): Forseti vill biðja hv. þingmenn að gefa þeim sem í ræðustól er hljóð til að ljúka máli sínu.)