139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:35]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í spurningu minni geri ég mér ljóst að á tveimur mínútum geta menn kannski ekki útfært þetta til hlítar. En af því að hv. þm. Mörður Árnason hefur ítrekað kallað hér fram í þá tókst undir hans stjórn fyrir nokkrum dögum að ná ágætri sátt þingsins þar sem allir aðilar komu einmitt að lausn máls í sambandi við Árósasamninginn og fullgildingu hans. Það er kannski það sem hv. þm. Pétur Blöndal átti við, að menn ættu að vinna saman en standa ekki í karpi hér um það sem allir eru ósáttir við, ég held að enginn vilji í raun og veru tala fyrir þessum gjaldeyrishöftum.

Það var upplýst fyrr í dag að samkomulag hefði orðið í efnahags- og skattanefnd í vor þegar við fjölluðum um þetta mál að í sumar færi fram lögfræðileg og hagfræðileg úttekt á þessu frumvarpi um hvaða áhrif það hefði á samfélagið og hvernig við gætum kannski í kjölfarið mótað leiðina til þess að losa um gjaldeyrishöftin. Samtímis átti að kanna hvort þær hugmyndir sem væru í frumvarpinu dygðu Seðlabankanum til að gera það sem honum er ætlað á meðan gjaldeyrishöftin eru. Nú er líka ljóst að þessi vinna fór ekki fram. Mig langar að heyra álit þingmannsins á því hvort hann sé ekki sammála mér um að umræðan hér sé svolítið sérkennileg og að við ættum einmitt að fara í það far sem hann nefndi áðan, að leita hinnar sameiginlegu lausnar, menn ættu setjast niður, hugsanlega lögfesta þetta til áramóta eða hversu lengi það er sem er í dag og fara í þá úttekt og könnun sem ríkisstjórnin ætlaði að gera í sumar eða hver það var sem ætlaði að taka það að sér, hvort það var efnahags- og skattanefnd eða hæstv. ráðherra, og þá gætum við (Forseti hringir.) tekið umræðu um hvað við ættum að gera.