139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get glatt hv. þingmann með því að slík tillaga og breytingartillaga er á leiðinni — hún er á leiðinni inn í þing og flutt af mér — um að þessu máli verði frestað til áramóta og þingi, hæstv. ríkisstjórn, hagsmunaaðilum og sérfræðingum yrði boðið upp í þann dans að móta leiðir þannig að hægt sé að afnema gjaldeyrishöftin á stuttum tíma, örstuttum tíma, sem ég held að eiginlega allir séu sammála að sé nauðsynlegt.

Hv. þm. Mörður Árnason kallaði hér fram í nokkrum sinnum: Hvaða leiðir, hvaða leiðir? (MÁ: Já.) Ég skal bara koma með þær leiðir. Ég lagði það til haustið 2008 að tekinn yrði upp annar gjaldeyrismarkaður við hliðina á þeim sem Seðlabankinn hefði, þ.e. aflandskrónumarkaðurinn sem núna fer fram um alla Evrópu og er afskaplega óskilvirkur. Óskilvirkur vegna þess að hann er ekki einn, þeir eru margir úti um allt og gengið rokkar fram og til baka. Ég lagði til að þetta yrði flutt til Íslands. Þá var ég formaður efnahags- og skattanefndar. Ég lagði þetta til. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagði þvert nei, við leyfum ekki tvöfalt gengi. Nákvæmlega eins og þeir hafa verið á móti hugmynd hv. þm. Lilju Mósesdóttur um að skattleggja sölu á gjaldeyri, sem er nákvæmlega það sama, tvöfalt gengi. Það gæfi ríkissjóði miklar tekjur, bæði tilfellin, og mundi hægt og rólega færa saman þessa tvo markaði þannig að það myndaðist eitt gengi. Þá getum við aflétt höftunum eins og ekkert sé. Þetta lagði ég til. Þetta er ákveðin leið, hv. þingmaður, sem hér hefur kallað fram í.

Ég hef komið með margar tillögur um lausnir og ég býst við að það séu til sérfræðingar í landinu sem geta búið til leiðir til að afnema gjaldeyrishöftin, almáttugur.