139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Við stöndum í þessari umræðu annan daginn í röð. Um er að ræða framhald 2. umr. um frumvarp ríkisstjórnarinnar, hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, um framlengingu gjaldeyrishafta. Það hefur komið fram í umræðum í dag að málið ber að á annan hátt en til stóð í vor. 2. umr. um frumvarpið hófst í vor, á vorþingi, en henni laun í byrjun júní, snemma í júní, þegar um það náðist samkomulag að áður en umræðunni yrði haldið áfram, áður en málið yrði til lykta leitt hér í þinginu, yrði kallað eftir óháðum lögfræði- og hagfræðiálitum, úttektum. Orðalagið „úttekt“ er notað í greinargerð með frumvarpinu sem fól samkomulagið í sér. „Álit“ er orðið sem hv. formaður efnahags- og skattanefndar, Helgi Hjörvar, notaði í ræðu sinni.

Það var sem sagt forsenda þess að áfram yrði haldið með málið að sumarið yrði nýtt til að kalla eftir óháðum lögfræði- og hagfræðiúttektum, annars vegar á núverandi stöðu gjaldeyrishaftanna og hins vegar á möguleikunum í sambandi við afnám þeirra. En í sumar gerðist ekkert. Það gerðist ekkert í málinu. Samkomulagið sem gert var í vor var svikið, annaðhvort af ásetningi eða fyrir sakir gleymsku, í einhverju klúðri. Hvort tveggja er slæmt. En það skiptir ekki máli núna. Það sem skiptir máli er að þegar þessar upplýsingar hafa komið fram, þegar þessi sjónarmið hafa komið fram, er ótækt fyrir okkur að halda þessari umræðu áfram nema leitað verði eftir þeim lögfræði- og hagfræðiálitum sem allir voru sammála um í vor að væru nauðsynleg til að unnt væri að halda áfram með málið.

Við eigum því að taka málið af dagskrá og leita þeirra upplýsinga, þeirra úttekta, þeirra álita, sem eftir var spurt áður en áfram er haldið með málið. Í því sambandi er fyrst og fremst ein leið tæk þannig að unnt verði að fá óháð, vel unnin og greinargóð lögfræði- og hagfræðiálit áður en málið er leitt til lykta, og það er að fara að þeirri tillögu sem hv. þm. Pétur Blöndal vísaði til hér áðan, að hann hygðist leggja fram, um einhvers konar frekari framlengingu núgildandi hafta, núgildandi haftalaga, kannski um einhverra mánaða skeið í mesta lagi, fram í desember eða janúar eða eitthvað svoleiðis, þannig að tími gefist til að vinna þau faglegu álit sem um er talað og tími gefist til að búa til trúverðuga stefnu til að losa okkur út úr höftunum. Því eins og þessi umræða hefur þróast, bæði í vor og nú í þessari viku, virðist enginn vilja viðhalda höftunum. Allir sem hér hafa talað hafa tjáð sig með þeim hætti að þeir vilji losna við höftin þar sem uppi er ágreiningur um aðferðina við það.

Þá segi ég: Í stað þess að afgreiða þetta frumvarp, samþykkja tillögu ríkisstjórnarinnar, ríkisstjórnarflokkanna, um að framlengja höftin til 2015, eigum við að taka okkur nokkra mánuði, framlengja núgildandi reglur, kannski til áramóta í mesta lagi, og nota þann tíma til að komast að einhverri vitrænni niðurstöðu í þessu. Ég segi eins og mjög margir hafa sagt í þessari umræðu: Það er algjörlega óviðunandi fyrir íslenskt atvinnulíf og íslensk heimili að horfa upp á gjaldeyrishöft sem jafnvel munu standa í fjögur ár í viðbót. Það er algjörlega óviðunandi. Þau hafa þegar verið í gildi í nærfellt þrjú ár. Það er allt of langur tími. Tíminn til 2015 er alveg skelfilegur sem viðbót við þann tíma sem þegar er liðinn.

Það er algjörlega óviðunandi að gjaldeyrishöft sem samþykkt voru sem tímabundin neyðarráðstöfun í nóvember 2008 eigi að gilda í sjö ár. Það er algjörlega ótækt. Það stenst ekki neina skoðun. Bara til upprifjunar var frá því gengið, og um það talað, þegar gjaldeyrishöftin voru sett á, að þau ættu að gilda í lengsta lagi í tvö ár, frá nóvember 2008 talið. Auðvitað var um það talað, bæði af hálfu sérfræðinga og stjórnmálamanna, að leita yrði leiða til að afnema höftin fyrr, þessi tvö ár yrðu ekki notuð út í ystu æsar. En það tókst ekki. Sama var uppi á teningnum þegar lög sem framlengdu og hertu á höftunum 2010 voru samþykkt. Þá var líka sagt að nauðsynlegt væri að framlengja þau, en hins vegar yrði allra leiða leitað til að klára málið fyrr en tímafrestirnir sögðu til um. Það sama er sagt núna. Það er sagt: Jú, jú, lögin eiga að gilda til 2015, höftin eiga að gilda til 2015, en við munum afnema þau fyrr. Reynslan gefur okkur hins vegar ekki tilefni til að taka mark á slíkum yfirlýsingum, því miður.

Ég tek því undir þau orð sem komið hafa fram í mörgum ræðum hér í dag og í gær, það eru skelfileg skilaboð til íslensks atvinnulífs, til íslensks almennings og til þeirra erlendu aðila sem hugsanlega vilja eiga viðskipti við Ísland, að horfa fram á gjaldeyrishöft í fjögur ár í viðbót. Ég fullyrði að þetta er með alvarlegustu vandamálum sem við glímum við núna, það eru gjaldeyrishöftin. Þau eru með alvarlegustu vandamálum sem við glímum við í efnahagsmálum. Og þau eru ein helsta hindrunin, held ég, fyrir því að við náum okkur aftur á strik í efnahags- og atvinnumálum. Gjaldeyrishöftin eru verulegur hemill á það að íslenskt atvinnulíf nái að taka við sér.

Ég vil ljúka þessari ræðu á sama stað og ég byrjaði. Burt séð frá því sem liðið er eigum við að staldra við, setja málið í þann farveg að framlengja höftin og núgildandi löggjöf um nokkurra mánaða skeið, fárra mánaða skeið. Við eigum alls ekki að samþykkja það frumvarp sem liggur fyrir eins og það er, heldur framlengja núgildandi fyrirkomulag í nokkra mánuði, kalla eftir þeim lögfræði- og hagfræðiálitum sem við teljum okkur þurfa og reyna að ná saman, eins og hv. þm. Pétur Blöndal hafði ágæt orð um hér áðan, ná sem víðtækastri sátt og ná sem víðtækastri samstöðu um trúverðuga leið út úr þessu. Það er lykilatriði.

Vissulega eru engar töfralausnir til í þessu sambandi. Allar leiðir sem miða að því marki að ná okkur út úr gjaldeyrishöftunum hafa óvissu í för með sér, hafa áhættu í för með sér. Áður en við tökum slíkar ákvarðanir verðum við því að fá þá bestu faglegu ráðgjöf sem við eigum kost á í því sambandi. Við verðum að stíga skrefin af yfirvegun, en við eigum hins vegar alls ekki að fallast á frumvarpið sem hér liggur fyrir. Í því felst gríðarleg uppgjöf gagnvart vandamálinu þegar lagt er til að haftafyrirkomulagið, sem sett var til að bregðast við bráðavanda í nóvember 2008, (Forseti hringir.) eigi að framlengja til 2015.