139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:59]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ágæta ræðu. Hann minntist á að það eitt og sér að setja þessi lög, um fimm ára framlengingu gjaldeyrishaftanna, hefði neikvæð áhrif á viðskipti við útlönd og seinkaði erlendri fjárfestingu eða drægi úr henni og drægi hreinlega úr áhuga þeirra sem eru í viðskiptum við okkur og þeirra sem hefðu áhuga á að fjárfesta hér á landi. Ég get tekið undir það.

Umræðan hefur snúist um það að við þurfum að hafa gjaldeyrishöft til að fá skjól fyrir þeim breytingum sem við þurfum að gera innan lands til þess að erlend fjárfesting verði enn fýsilegri og að viðskipti við útlönd verði öflug. Mig langar í því sambandi að spyrja hv. þingmann hvernig honum sýnist að núverandi stjórnvöld séu að vinna þá vinnu, það hlýtur að vera vinna sem þarf að fara í samhliða því að gefa út yfirlýsingu um að hér verði í það minnsta skjól í fimm ár en síðan eigi allt að verða gott allt í einu. Stuðla stjórnvöld að þessu þegar þau til að mynda tala krónuna niður daginn út og daginn inn — hvort það sé líklegt til að auka tiltrú erlendra fjárfesta á fjárfestingu hér, skattstefnan sem verið hefur og fleira mætti nefna.

Ef þingmaðurinn hefur tíma til væri svo sem (Forseti hringir.) áhugavert að velta því upp hvaða leiðir aðrar ríkisstjórnin ætti að fara, mér hefur fundist (Forseti hringir.) sú leið sem þeir fara vera röng.