139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[19:01]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrirspurnir hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar eru afar margþættar. Hann verður að virða mér það til vorkunnar ef ég næ ekki að koma inn á öll atriðin í þessu stutta svari.

Svo að ég byrji nú á þeim stað þar sem hann endaði þá er það hárrétt að forsenda þess að hér komist á eðlilegt ástand á gjaldeyrismarkaði, ef við getum kallað það svo, er tiltrú á efnahagslífinu hér innan lands, tiltrú á möguleikum íslensks atvinnulífs, tiltrú á því að hér verði gott og vaxandi hagkerfi. Því miður hefur núverandi ríkisstjórn ekki staðið í stykkinu hvað það varðar. Þegar hv. þingmaður vísaði til þess að af hálfu þeirra sem vilja viðhalda höftunum séu þau hugsuð sem einhvers konar skjól meðan verið sé að koma hlutunum í lag, horfi ég til baka síðustu tvö ár og hugsa með mér: Hafi átt að nýta gjaldeyrishöftin sem skjól hafa þau ár verið afar illa nýtt. Ég vona að þetta svari þeim þætti fyrirspurnar hv. þingmanns sem að þessu sneri.

Það er mikilvægt að breyta um stjórnarstefnu til að auka tiltrú á íslensku atvinnulífi, það hjálpar okkur óneitanlega mjög mikið í sambandi við afnám gjaldeyrishaftanna. Um það þarf enginn að velkjast í vafa.