139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[19:08]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmönnum hér í ræðustól undanfarinn hálftíma eða klukkutíma fyrir fágæta innsýn sem mér hefur veist, sem er að hlusta á þessa umræðu í fyrsta sinn, ég hef ekki mikið verið við hana áður, í hugarheim stjórnarandstæðinga og í frjósemi þeirra í efnahagsmálum og hagstjórn. (BJJ: Takk fyrir.)

Fram hafa t.d. komið tvær athyglisverðar tillögur frá Sjálfstæðisflokknum um framhald þess máls sem við erum að ræða. Annars vegar sú tillaga Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, fyrir kosningarnar 2009, að við ættum að losa okkur úr gjaldeyrishöftunum og úr þeim vandræðum sem við erum í í gjaldmiðilsmálum með því að taka upp evru eða tengja okkur við hana með einhverjum hætti. Því miður hafa þeir sjálfstæðismenn sem hér hafa talað ekki tekið undir þessa tillögu Bjarna Benediktssonar í umræðunni og hún bíður þess vegna þess að hann komi hingað sjálfur og skýri út hvernig hann ætlar að fara að þessu.

Hin tillagan frá Sjálfstæðisflokknum er tillaga Péturs H. Blöndals sem líka mun hafa nokkurn aldur og vera orðin mjög þroskuð innan Sjálfstæðisflokksins. Hún snýst um það að hér sé tvöfaldur gjaldmiðill, hér séu tveir gjaldeyrismarkaðir, annar frjáls, ef ég skil hann rétt, hinn ófrjáls. Athyglisverð tilraun, væntanlega eitthvað svipað og með olíuna, þ.e. lituð olía og ólituð olía, að öðrum megin sé sumsé litaður gjaldeyrir og ólitaður hinum megin. Ég er ekki mjög verseraður í þessum gjaldmiðilsmálum, er bara eins og hvur annar almenningur í því, en mér þykir þetta athyglisvert.

Ég tek eftir að hv. ræðumaður sem ég er í andsvari við tekur undir hvoruga þessara leiða sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur þó sett fram. Ég vil spyrja hann sérstaklega um afstöðu hans til beggja leiða, til tillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar (Forseti hringir.) annars vegar og til tillögu hv. þm. Péturs H. Blöndals hins vegar.