139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[19:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef veitt því athygli að hv. þm. Mörður Árnason hefur verið töluvert við þessa umræðu upp á síðkastið og hefur þar af leiðandi heyrt nokkuð af þeim orðaskiptum sem hér hafa farið fram. Hann hefur þá væntanlega heyrt viðbrögð mín við sambærilegri spurningu sem hv. þm. Magnús Orri Schram bar upp áðan varðandi sjónarmiðið um tenginguna við evruna í tengslum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem formaður Sjálfstæðisflokksins reifaði vissulega og kynnti fyrir kosningarnar 2009.

Ég er þeirrar skoðunar og hygg að það sé víðtæk skoðun, ekki bara innan Sjálfstæðisflokksins heldur alls staðar í þinginu, að margt hafi breyst á rúmum tveimur árum, margt hefur breyst. Það sem kann að hafa verið í stöðunni vorið 2009 getur verið gerbreytt í dag. Með sama hætti geta hugsanlega verið möguleikar fyrir hendi nú sem menn sáu ekki vorið 2009. Ég held að það hljóti raunsæismaður eins og hv. þm. Mörður Árnason að viðurkenna.

Við erum á þessari stundu að reyna að finna leiðir út úr gjaldeyrishaftafyrirkomulagi sem við teljum óviðunandi. Það er hægt að fara ýmsar leiðir. Við erum reiðubúin að setjast niður og finna möguleika í því sambandi í samstarfi við flokk hv. þingmanns og aðra flokka á þingi. Við teljum að það sé gríðarlega brýnt að komast út úr þessu haftafyrirkomulagi.

Ég verð að játa að ég er tilbúinn að skoða flestar leiðir í því sambandi en ekki að samþykkja umyrðalaust gjaldeyrishöft (Forseti hringir.) til ársloka 2015 eins og frumvarp ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir.