139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[19:13]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tók eftir að hv. þingmaður hafnaði leið hv. þm. Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, og minntist ekki á tillöguna um litaða gjaldeyrinn sem er frá hv. þm. Pétri H. Blöndal og er afar athyglisverð fyrir okkur sem ekki höfum sama vit á gjaldeyrismálum og Pétur H. Blöndal. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður hafni henni líka, hafi gert það með þögninni. Þá stendur eftir sú tillaga þingmannsins og málsvara Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu, hefur mér virst, að við eigum að hugsa málið. Við eigum að leita til sérfræðinga og prófessora og leiða saman hina og þessa í nokkra mánuði meðan við hugsum málið.

Er það það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að vanrækja tvö síðustu ár þrátt fyrir þessar ágætu tvær tillögur sem hafa komið frá tveimur forustumönnum hans? Hefur hann ekki hugsað málið? Hefur hann virkilega enga tillögu um það hvaða leið við eigum að fara út úr þeim vanda sem hér stendur enn þótt margt hafi breyst á þessum tveimur árum? Margt hefur sem betur fer batnað á þessum tveimur árum.

Öfugt við hv. þingmann hef ég ákveðna leið út úr þessum vanda. Því miður er ríkisstjórnin ekki sammála um hana gjörvöll en batnandi mönnum er best að lifa í því efni. Hún er leið hv. þm. Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Hún er sú að við tengjum íslensku krónuna við evruna með inngöngu í Evrópusambandið og tökum síðan upp þann gjaldmiðil, losum okkur úr gjaldeyrishöftunum, losum okkur við verðtrygginguna og verðbólguna í leiðinni. Ég er ekki að segja að paradís upphefjist á jörðu en það er auðvitað lausnin, það er eina lausnin sem íslenskur stjórnmálaflokkur er með út úr þeim vanda sem við ræðum eins og nú er ástatt.