139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[20:01]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (frh.):

Herra forseti. Ég er komin aftur í ræðustól til að klára ræðu mína. Áður en við fórum í matarhlé lofaði ég að gera grein fyrir helstu atriðum ræðu minnar fram að þeim tíma. Gagnrýni mín á þeirri lausn gjaldmiðilskreppunnar sem er í boði núverandi ríkisstjórnar gengur út á að núverandi ríkisstjórn sé að bjóða okkur upp á krónu í höftum. Fyrir liggur frumvarp þar sem herða á höftin og framlengja þau til ársloka 2015. Ég hef þá trú að við þurfum að framlengja þau jafnvel enn lengur og grunar að sú sé jafnvel ætlun annars stjórnarflokksins, þ.e. Samfylkingarinnar, því að einhver hefur komist að því að sennilega verði hægt að taka upp evruna árið 2017. Það er einmitt lausn Samfylkingarinnar á gjaldmiðilskreppunni.

Ég hef aftur á móti lagt til aðra lausn og hún er sú að við tökum upp sænska krónu. Ástæðan er sú að rannsóknir hagfræðinga sýna að hagsveiflur hér á landi og hagsveiflur í Svíþjóð eru mjög sambærilegar. Þegar sænska krónan er veik er yfirleitt niðursveifla hér og við þurfum á veikum gjaldmiðli að halda þegar samdráttur er í efnahagslífinu. Og síðan öfugt; þegar sænsk króna er sterk hefur í gegnum tíðina verið þensla í íslensku hagkerfi og þá skiptir máli að vera með sterkan gjaldmiðil. En því er ekki þannig varið með evruna. Það er afskaplega sjaldan sem evran er nær því að vera veik þegar við þurfum á veikum gjaldmiðli að halda og sterk þegar við þurfum sterkum gjaldmiðli að halda.

Frú forseti. Það er svo skrýtið að aldrei hefur verið borin fram formleg beiðni til Norðurlandanna um að fá að taka upp einhvern norrænan gjaldmiðil eða að minnsta kosti að fá að ræða um möguleika þess að taka upp sænska krónu eða norska krónu. Annar stjórnarflokkurinn, Samfylkingin, hefur einmitt verið í stjórn frá hruni og maður veltir því fyrir sér hvort hún hafi áhyggjur af því að einhver betri möguleiki bjóðist á lausn gjaldmiðilskreppunnar en upptaka evrunnar. Hún hafi því ekki sýnt því neinn áhuga að koma á formlegum samskiptum við Norðurlöndin um upptöku norræns gjaldmiðils.

En það er ekki bara gjaldmiðilsleiðin sem ég er gagnrýnin á varðandi lausn gjaldmiðilskreppunnar, þá leið að taka upp evru þegar við erum búin að uppfylla Maastricht-skilyrðin. Ég tel jafnframt að við séum á rangri braut og þá sérstaklega Seðlabanki Íslands með áætlun hans um afnám gjaldeyrishaftanna. Sú áætlun gerir ráð fyrir því að hluta af aflandskrónunum verði hleypt út úr hagkerfinu í gegnum uppboðsmarkaði og til að koma í veg fyrir gengishrap krónunnar verði stýrivaxtahækkunum beitt, stýrivextir sem sagt hækkaðir. Þetta sáum við einmitt gerast í ágúst þegar Seðlabankinn hélt tvisvar uppboð til að hleypa aflandskrónunum út, í fyrra skiptið til að kaupa aflandskrónur og í hitt skiptið til að hleypa þeim út. Við það veiktist krónan. Reyndar voru aðrar ástæður líka fyrir því að krónan veiktist, verðhækkanir erlendis gerðu það að verkum að hún veiktist töluvert fyrri hluta þessa árs og Seðlabankinn brást við eins og venjulega með vaxtahækkun.

Við búum við vaxtastig í dag sem er töluvert hærra en í flestum öðrum löndum. Ég nefni sem dæmi Bretland þar sem stýrivextir eru ekki nema 0,5% en verðbólga er á sambærilegu stigi og hér á landi eða um 5%. Þar eru engar fyrirætlanir um að fara í einhvers konar vaxtahækkunarferil. Seðlabanki Íslands ætlar að afnema gjaldeyrishöftin með uppboðsmörkuðum og vaxtahækkunum þannig að við megum búast við enn hærri vöxtum. Þess vegna er niðurstaða mín að það sé mjög brýnt að við fáum sérfræðinga til liðs við okkur til að móta nýja peningamálastefnu sem felst í því að vextir taki mið af stöðu heimila og fyrirtækja og við afnám á gjaldeyrishöftum verði innleiddur skattur á útstreymi fjármagns og verðtryggingin fryst eða jafnvel afnumin.