139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[20:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því að samkomulag sem gert var í júní við stjórnarandstöðuna um að fram fari hagfræðileg og lagaleg úttekt hafi verið brotið. Mér finnst mjög brýnt að sú úttekt fari fram og hv. þingmenn í efnahags- og skattanefnd noti þá úttekt til að móta helstu drættina í nýrri peningamálastefnu.

Í dag gengur peningamálastefnan fyrst og fremst út á gengisstöðugleika, sama hver er staða fyrirtækja og heimila í landinu. Um leið og verðlag hækkar erlendis, vegna þess að Seðlabanki Bretlands er að prenta peninga, þá hækka vextir hér þrátt fyrir að mjög lítið sé um fjárfestingar í atvinnulífinu og að meiri hluti skuldsettra heimila eigi í erfiðleikum með að standa við skuldbindingar sínar.