139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[20:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem við sáum gerast þegar stýrivextirnir voru hækkaðir í ágúst var að fjárfestarnir fóru að selja íslensk ríkisskuldabréf. Það er það sem gerist þegar vextir á bankabókum hækka sem þeir eiga að gera þegar stýrivextir eru hækkaðir. Þá vilja fjárfestar í raun og veru fá meiri ávöxtun á verðbréfin sín og ef þeir fá það ekki selja þeir verðbréfin og fara með peningana yfir í bankabækur.

Strax við þessa vaxtahækkun varð skortsala á íslenskum ríkisskuldabréfum, sem er mjög alvarlegt mál vegna þess að ríkissjóður er rekinn með miklum halla sem hefur þurft að fjármagna með útgáfu ríkisskuldabréfa. Ef þetta vaxtahækkunarferli sem er hluti af afnámi gjaldeyrishafta á að leiða til þess að ríkissjóður lendi í vandræðum með að endurfjármagna sig og fjármagna hallann þá erum við illa stödd. Það mun þá þýða hærri vaxtakostnað og meiri niðurskurð.