139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[20:25]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og tek undir þær áhyggjur sem hv. þingmaður hefur af því ef skortsala íslenskra ríkisskuldabréfa eykst.

Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að hún teldi evruna ekki heppilegan gjaldmiðil og færði fyrir því ágætisrök. Hennar hugmynd var að tala við aðrar Norðurlandaþjóðir. Mig langar að beina spurningu til hv. þingmanns um það sem sumir hagfræðingar hafa haldið fram, að taka upp eða innleiða til að mynda bandaríkjadollar. Margir fræðimenn eða a.m.k. nokkrir hafa haldið því fram að það væri góður kostur í stöðunni. Hver er skoðun hv. þingmanns á því? Telur hún skynsamlegt að taka einhliða upp gjaldmiðilinn, telur hún það raunhæft eða verður að gera það í samstarfi við aðrar þjóðir?