139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[20:26]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að svara spurningu sem ég náði ekki að svara í fyrra svari mínu, þ.e. hvað mér finnist um fullyrðingar hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um að krónan sé ónýtur gjaldmiðill. Mér finnst þær mjög alvarlegar og mér finnst hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra vera í mótsögn við sjálfan sig þegar hann sakar stjórnarandstöðuna um að vera með bölsýni því að slíkar yfirlýsingar eru ekkert annað en bölsýni og hafa áhrif á hegðun fjárfesta á gjaldeyrismörkuðum, með öðrum orðum þeir vilja síður kaupa ónýtan gjaldmiðil. Gengi krónunnar getur þar af leiðandi veikst og er jafnvel veikara en það þyrfti að vera.

Varðandi bandaríkjadollar þá hentar evran í raun og veru betur íslensku hagkerfi. Það sýna rannsóknir hagfræðinga og það sama gildir um kanadíska dollara. Við þyrftum í raun ef við ætluðum að taka upp þessa gjaldmiðla að umbreyta algerlega útflutningi okkar (Forseti hringir.) frá því að flytja út til Evrópu til Norður-Ameríku.