139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[20:50]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrirspurnirnar. Þær voru sumar reyndar nokkuð stórar og sjálfsagt er erfitt að svara þeim til hlítar á þessum tíma.

Mér finnst allar þær spurningar er spretta upp og varða það hvort þetta frumvarp, og reyndar svo mörg önnur, varði brot á stjórnarskrá þess eðlis að við virðumst ekki hafa lært nóg af hruninu eins og við ætluðum. Þar sem við hv. þingmaður áttum sæti í þingmannanefndinni sem fjallaði um rannsóknarskýrslu Alþingis á sínum tíma þá var einmitt talsvert fjallað um að styrkja þyrfti Alþingi, til að mynda með því að búið væri að fara yfir öll þau frumvörp sem hér kæmu inn. Í því sambandi ræddum við um lagaskrifstofu — og lögð hefur verið fram þingsályktunartillaga um að koma slíkri skrifstofu á fót í þinginu — til að ganga úr skugga um að svona hlutir komi ekki hingað inn þannig að við séum ekki daginn út og daginn inn í stórum málum að velta því fyrir okkur hvort einstök ákvæði frumvarpa brjóti stjórnarskrána eður ei.

Á sama hátt má spyrja, varðandi það framsal sem hv. þingmaður lýsti í frumvarpinu frá löggjafanum til Seðlabankans, um Seðlabankann. Hann fékk vægast harða útreið í rannsóknarskýrslu Alþingis og við sem í nefndinni sátum samþykktum að eðlilegt væri að á einhverjum tímapunkti yrði gerð stjórnsýsluúttekt á stöðu Seðlabankans, hvernig honum tækist að höndla það sem hann ætti að gera. Þess vegna orkar það mjög tvímælis og er sérkennilegt að við, án þess að hafa gengið úr skugga um að svo sé, ætlum að fara að varpa verkefnum af þessu tagi yfir á hans herðar, án þess að hafa í raun hugmynd um hvort hann sé í stakk búinn til að ráða við það.