139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[20:53]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó eftir þessu sama í dag og ætlaði reyndar aðeins að fjalla um það í ræðu minni en hafði ekki tíma til þess. Þetta hljómaði mjög sérkennilega og það verður að segjast eins og er að þegar maður sér svona og heyrir styrkir það mann ekki í þeirri trú að Seðlabankinn sé til að mynda orðin sú stofnun sem við ætlum að hann sé, embættismannakerfið þar sé ekki eins og við trúum að það eigi að vera. Ég er líka sannfærður um, og hef svo sem oft komið í pontu til að ræða það, að við hér í þingsal höfum heldur ekki tekið nóg til okkar af þeim ályktunum og niðurstöðum, sem við þó samþykktum 63:0. Ég held að það sé helst því um að kenna að við höfum ekki einbeitt okkur nægilega að verkefninu. Við trúum því kannski, eins og áður var, eins og var fyrir hrun, að einhver annar sé að vinna verkið. (Forseti hringir.) Það er kannski sá einfaldasti lærdómur sem við höfum átt að draga af hruninu, að tryggja að einhver sé að vinna verkið.