139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[20:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom inn á það að svo virtist sem menn hefðu gefist upp við að ná tökum á efnahagsstjórninni. Mig langar að bera undir hv. þingmann atriði sem mér finnst vera staðfesting á þeirri uppgjöf allri. Í meirihlutaáliti frá hv. efnahags- og skattanefnd stendur, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn áréttar að höftin eigi ekki að vara að eilífu og markmið sé að afnema þau í áföngum, því fyrr því betra.“

Það er ekki meira en þetta. Það er enginn metnaður, enginn þrýstingur á stjórnvöld eða Seðlabankann að gera þetta með ákveðnum hætti eða ná ákveðnum árangri, heldur það eitt að þetta eigi ekki að vara að eilífu. Ég spyr hvort hv. þingmaður geti tekið undir það með mér að þetta sé í raun staðfesting á uppgjöf ríkisstjórnarinnar við stjórn efnahagsmála.

Það er alveg ljóst að ef gerð er skýrari og skjótvirkari áætlun en hér er mælt fyrir veitir það stjórnvöldum aðhald og eykur um leið trúverðugleika efnahagsstefnunnar. Þá verða menn að fara að skapa hagvöxt, búa til störf, hætta að þvælast fyrir allri uppbyggingu, ná tökum á ríkisfjármálum og koma hjólum atvinnulífsins í gang. En eins og hv. þingmaður fór ágætlega yfir í ræðu sinni þá er það einmitt það sem hæstv. ríkisstjórn hefur algerlega mistekist. Sú óeining sem þar er innan veggja ræður miklu. Ef Samfylkingin fær að halda áfram Evrópusambandsumsókninni geta Vinstri grænir þvælst fyrir allri atvinnuuppbyggingu og það er svona kaup kaups, það er í raun fórnarkostnaður þjóðarinnar fyrir að hafa þessa ríkisstjórn. Ég vil bera það undir hv. þingmann hvort hann geti tekið undir þessar hugleiðingar mínar.