139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:01]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo sem alveg rétt, þetta eru ekki bara vangaveltur, það er margt sem bendir til að þetta sé hárrétt ályktað hjá okkur þingmanninum. Ég veit ekki hvaða ólán það er sem hangir yfir okkur að ráðherrar efnahags- og viðskiptamála skuli margir hverjir, allt síðan árið 2007, hafa það sem aðalhobbí að tala niður íslensku krónuna. Það er ekki bara sá síðasti. Ég held það séu allir sem hafa setið í þessum stóli. Það hljómar mjög ótrúverðugt þegar sá aðili sem fer með stjórn efnahagsmála notar hvert einasta tækifæri til að tala niður þann gjaldmiðil sem er í landinu á þeim tíma og mærir einhvern annan gjaldmiðil þó að þeir sem við hann þurfa að búa séu allir óttaslegnir. Það er mjög sérkennilegt.

Það sem skortir í þessa umræðu um gjaldeyrishöftin og afnám þeirra er að ef menn ætla að losa höftin, og komast út úr vítahring haftanna, verða menn að hafa trú á því sem menn eru að gera. Þá trú skortir.