139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Herra forseti. Við ræðum breytingu á lögum um gjaldeyrismál og tollalögum eða hin svokölluðu gjaldeyrishöft þegar klukkan er núna farin að ganga tíu á miðvikudagskvöldi og það er ekki að ástæðulausu sem við ræðum þetta grundvallarmál í þaula. Því miður eru það nær eingöngu þingmenn stjórnarandstöðunnar sem hafa kvatt sér hljóðs í dag. Stjórnarliðar hafa ekki séð mikla ástæðu til að ræða þessi mál mikið en ég vil þó geta þess að hv. þm. Magnús Orri Schram flutti alllanga og ítarlega ræðu í dag, sem ég var þó ekki að öllu leyti sammála eins og ég ætla að koma að seinna.

Staðreyndin er sú að þegar menn ætla að festa í lög að gjaldeyrishöft verði til loka ársins 2015 teljum við mörg að í því felist mjög alvarleg skilaboð um hvert íslenskt samfélag stefnir á næstu árum. Við þurfum ekki að horfa langt aftur í tímann. Það er ekki ýkjalangt síðan hér voru gjaldeyrishöft um áratugaskeið, hátt í 60 ár, sem áttu einungis að vera í örfá ár þegar þau voru sett á sínum tíma.

Nú stefnir í, verði frumvarpið samþykkt, að gjaldeyrishöft verði við lýði á Íslandi frá árinu 2008 til ársins 2015 eða í sjö ár. Það sem veldur manni meiri áhyggjum er að fyrri plön ríkisstjórnarinnar um hvenær afnema eigi höftin hafa ekki staðist. Menn hafa framlengt þær ákvarðanir sí og æ. Því má gera ráð fyrir og færa fyrir því sannfærandi rök að við séum með hinni miklu lengingu að festa höftin enn frekar í sessi og þá jafnvel til áratuga og slíka framtíðarsýn á ég mér ekki fyrir hönd íslensku þjóðarinnar.

Við ræðum oft um vinnubrögð og ég hélt að við hefðum lært eitthvað af vinnubrögðum í mikilvægum málum sem snerta þjóðarhagsmuni. Vil ég þá nefna Icesave-málið sérstaklega þar sem við þurftum sí og æ í minni hlutanum á Alþingi að kalla eftir því að staðið yrði við það samkomulag sem gert var um málsmeðferð þess máls. Nú finnst mér ég vera farinn að upplifa sömu vinnubrögðin aftur í grundvallarmáli sem snertir starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja til næstu ára og síðast en ekki síst til þess umhverfis sem íslenskar fjölskyldur eiga að lifa í næstu árin.

Í vor þegar Alþingi gerði hlé á þingfundum var gert svofellt samkomulag sem var staðfest á þingskjali 1750 og var dreift í þinginu þar sem stóð m.a., með leyfi forseta:

„Efnahags- og skattanefnd mun áður en nefndafundir og þingfundir hefjast í september óska eftir lagalegri og hagfræðilegri úttekt á frumvarpi ráðherra og einstökum greinum þess. Meta þarf hvort lögfesting þess veiti Seðlabanka Íslands nægilegan sveigjanleika til að bregðast skjótt við leka í gjaldeyrishöftum samhliða losun þeirra samkvæmt áætluninni.“

Þetta er alveg skýrt. Þarna var samkomulag á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um málsmeðferðina í þessu mikilvæga máli. Þessi ítarlega, hagfræðilega og lögfræðilega greining hefur enn ekki farið fram. Það sem við höfum óskað eftir er að menn standi við það samkomulag sem var gert, enda er það nauðsynlegt í þágu þjóðarinnar að við förum ítarlega yfir það, hagfræðilega og lagalega, hvaða áhrif það frumvarp sem við ræðum muni hafa á allt umhverfi efnahagsmála hér á landi á komandi árum. Það kann að líta þannig út og sumir stjórnarliðar geta látið í það skína að við séum að stunda eitthvert málþóf, en ég segi nei við því. Við erum að reyna að ná því í gegn sem samþykkt var í vor með samkomulagi milli stjórnar og stjórnarandstöðu, að við mundum vanda til verka þegar kemur að þessu brýna hagsmunamáli þjóðarinnar. Eigum við ekki að læra eitthvað af sögunni? Hafa menn ekki gert mikil mistök í mjög stórum hagsmunamálum sem hafa snert íslensku þjóðina í heild sinni talandi um Icesave-málið? Þar þurftum við að berjast fyrir hagsmunum þjóðarinnar. Því er mjög mikilvægt að frumvarpinu verði breytt áður en það verður samþykkt sem lög frá Alþingi. Það veitir svo sannarlega ekki af vegna þess að það er vanreifað.