139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að talað er svo jöfnum höndum um Seðlabankann og íslensk stjórnvöld, þ.e. íslensku ríkisstjórnina, vil ég auðvitað að segja að þetta frumvarp hlýtur að vera borið fram á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Hitt getur verið að Seðlabankinn setji fram hugmyndir sínar um það hvernig bankinn vilji sjá afnám gjaldeyrishaftanna. Fyrir liggur núna yfirlýsing frá seðlabankastjóra um að hann mundi gjarnan vilja og teldi að það ætti að gerast miklu hraðar en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi.

Ábyrgðin á þessu máli hlýtur að hvíla á herðum ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin ber þetta fram, það er hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem ber frumvarpið fram með stuðningi ríkisstjórnarinnar og með, skyldi maður ætla, stuðningi þess nauma þingmeirihluta sem ríkisstjórnin þó lufsast áfram með. Þess vegna hljótum við að varpa ábyrgðinni á þessu máli algerlega á ríkisstjórnina. Það getur vel verið að einhverjar þessara hugmynda eigi uppruna sinn í Seðlabankanum eða annars staðar en þeir aðilar verða auðvitað ekki dregnir til ábyrgðar fyrir það sem stendur í þessu frumvarpi. Það er auðvitað þannig að þó að Seðlabankinn komi fram með hugmyndir er það ríkisstjórnarinnar að leggja sitt sjálfstæða mat á þetta mál. (Forseti hringir.) Er ekki hv. þingmaður sammála mér um að ábyrgðin í þessu máli hvílir á herðum ríkisstjórnarinnar?